Minnir á smærri útgáfu af Chernobyl

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa birt myndir af skemmdunum sem urðu ...
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa birt myndir af skemmdunum sem urðu í drónaárás á tvær olíuvinnslustöðvar í landinu um síðustu helgi. AFP

Rétt rúm vika er frá því að dróna- og eldflaugaárásir voru gerðar á tvær olíuvinnslustöðvar ríkisolíufélags Sádi-Arabíu, Aramco, sem hefur haft áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu en sólarhring eftir árásirnar minnkaði olíuframleiðsla Sádi-Arabíu um helming. 

Fréttamenn BBC fengu að kynna sér aðstæður á olíuvinnslustöðvunum í Abaqaiq og Khurais, sem eru skammt frá höfuðstöðvum Aramco í Dhahran. Frank Gardner, fréttamaður BBC, segir ástandið minna á smærri útgáfu af Chernobyl-kjarnorkuslysinu. 

Viðhald og viðgerðir hafa staðið yfir stanslaust frá því um síðustu helgi og unnið er allan sólarhringinn. Yfirvöld í Sádi-Arabíu fullyrða að olíuvinnslan verði komin á fullan skrið að nýju í lok mánaðarins. Það sem þau geta hins vegar ekki fullyrt er hvort hægt verði að koma í veg fyrir aðra árás. 

Viðhald og viðgerðir hafa staðið yfir stanslaust frá því um ...
Viðhald og viðgerðir hafa staðið yfir stanslaust frá því um síðustu helgi og unnið er allan sólarhringinn. AFP

Áhrif árásanna eru ekki eingöngu efnahagsleg, síður en svo. Banda­rík­in saka Íran um að bera ábyrgð á árás­un­um en stjórn­völd í Íran hafa ít­rekað hafnað öll­um ásök­un­um um aðild sína og for­seti Írans, Hass­an Rou­hani, seg­ir Jemena á bak við árás­irn­ar og að með þeim vilji árás­ar­menn­irn­ir vara við frek­ari hernaðaraðgerðum vegna hernaðar Sádi-Ar­aba, með stuðningi Banda­ríkja­manna, í Jemen.

Abqaiq olíuvinnslustöðin, önnur tveggja olíuvinnslustöðva, sem urðu fyrir drónaárás um ...
Abqaiq olíuvinnslustöðin, önnur tveggja olíuvinnslustöðva, sem urðu fyrir drónaárás um síðustu helgi. AFP
mbl.is