Fleiri bandarískir hermenn til Póllands

Andrzej Duda, forseti Póllands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti með yfirlýsinguna.
Andrzej Duda, forseti Póllands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti með yfirlýsinguna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í dag að fleiri bandarískir hermenn yrðu sendir til Póllands en hann ræddi meðal annars við Andrzej Duda, forseta Póllands, í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir.

Trump sagði að Pólverjar myndu greiða fyrir aukna viðveru bandarískra hermanna í Póllandi. „Við munum flytja hermenn þangað,“ sagði forsetinn. Sagði hann Pólverja ætla að reisa mannvirki í því skyni og sjá um að greiða allan kostnað.

Hins vegar veitti Trump litlar frekari upplýsingar um áformin, en þau eru hluti af sameiginlegri yfirlýsingu hans og Duda sem undirrituð var á fundi þeirra en samkvæmt henni verða eitt þúsund bandarískir hermenn sendir til Póllands.

Fyrir eru um 4.500 bandarískir hermenn í Póllandi að staðaldri. Trump sagði að líklegast yrðu hermennirnir sendir til landsins frá herstöðvum Bandaríkjamanna í öðrum Evrópuríkjum. Spurður hvort aukinni viðveru bandarískra hermanna í Póllandi væri ætlað að svara framgöngu Rússa sagði fosetinn: „Nei, ég held það alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert