Hafnað að leggjast gegn brexit

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi. AFP

Hafnað var naumlega tillögu á flokksþingi breska Verkamannaflokksins í dag um að flokkurinn beitti sér fyrir því að Bretland yrði áfram innan Evrópusambandsins þvert á niðurstöðu þjóðaratkvæðisins sem haldið var í landinu sumarið 2016.

Tillagan, sem naut ekki stuðnings Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, gekk út á það að flokkurinn beitti sér fyrir nýju þjóðaratkvæði þar sem hann myndi berjast fyrir því að Bretland yrði áfram hluti af Evrópusambandinu.

Formaður flokksþingsins, Wendy Nicholls, lýsti því fyrst yfir að tillagan hefði verið samþykkt, en atkvæðagreiðslan fór fram með handauppréttingum, en leiðrétti það síðan og sagði að hún hefði verið felld. Um 1.200 manns sitja þingið.

Nicholls hafnaði ósk um að atkvæðagreiðan yrði endurtekin. Flokksþingið fer fram í ensku borginni Brighton á suðurströnd Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert