Heimurinn „í djúpri loftslagsholu“

Ræða Gretu var tilfinningaþrungin.
Ræða Gretu var tilfinningaþrungin. AFP

Sænska baráttukonan Greta Thunberg hélt tilfinningaríka ræðu á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Þar sakaði hún leiðtoga heimsins um að hafa brugðist í baráttunni við loftslagsmál. 

„Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með orðagjálfri,“ sagði hún á leiðtogafundinum sem haldinn er í New York. 

Um 60 leiðtogar taka þátt í fundinum, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en einungis þeim leiðtogum er leyft að taka þátt sem ætla sér að minnka kolefnislosun. Þetta kemur fram í frétt BBC. Ræðu Gretu má sjá í heild sinni hér að neðan.

„Ég ætti ekki að vera hér“

Ekki var búist við að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi sjá sig þar sem hann er gjarnan efins um tilveru loftslagsbreytinga en honum brá þó fyrir í áhorfendahópnum. 

„Þetta er ekki rétt. Ég ætti ekki að vera hér. Ég ætti að vera í skólanum, hinum megin við hafið en samt sem áður komið þið til okkar og leitið vonar. Hvernig dirfist þið?“ Sagði Greta sem er 16 ára gömul. 

Hún hvatti leiðtogana til að grípa strax til aðgerða og sagði: „Við munum fylgjast með ykkur.“

António Guterres er aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
António Guterres er aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, skipulagði fundinn. Hann sagði heiminn „í djúpri loftslags holu“ og að aðgerðir bráðvantaði. 

„Tíminn er að renna út en það er þó enn ekki of seint að bregðast við,“ sagði Guterres. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði á fundinum að Þýskaland myndi tvöfalda sín fjárframlög í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert