Mestu fólksflutningar breska ríkisins á friðartímum

Aðgerðir breskra stjórnvalda vegna gjaldþrots ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook eru afar víðtækar, en 155.000 breskir ferðamenn urðu strandaglópar í einni svipan er tilkynnt var í nótt að Thomas Cook hefði farið sína hinstu ferð. 450.000 ferðamenn til viðbótar verða fyrir áhrifum af gjaldþrotinu.

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að koma sínu fólki heim og munu í raun gerast ferðafrömuðir næstu tvær vikurnar og leigja fjölda flugvéla til að koma Bretum heim á leið. Í raun eru þær aðgerðir ekki ólíkar þeim sem íslensk stjórnvöld gripu til til þess að koma viðskiptavinum WOW air á áfangastað í lok mars, en þó öllu umfangsmeiri.

Fólksflutningarnir nú eru þeir mestu sem bresk stjórnvöld hafa staðið fyrir á friðartímum, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC frá því í dag, en ýmist mun breska ríkið senda leiguvélar eftir sínu fólki eða bóka flugsæti fyrir fólk með öðrum flugfélögum.

16.000 manns áttu flug á vegum Thomas Cook heim til Bretlands úr fríi í dag og vonuðust þarlend stjórnvöld eftir því að um 14.000 kæmust á leiðarenda.

Ferðalangar með áhyggjusvip á flugvellinum í Cancun í Mexíkó í …
Ferðalangar með áhyggjusvip á flugvellinum í Cancun í Mexíkó í dag. AFP

Fram kemur í samantekt BBC um fall Thomas Cook að 22.000 störf gætu tapast á heimsvísu, þar af 9.000 störf í Bretlandi. Fyrirtækið átti alls 34 Airbus-þotur sem það notaði til þess að fljúga með ferðalanga um heiminn.

Dæmi eru um að hótel hafi krafið ferðamenn um að greiða reikninga sína sjálfir eftir að fréttir bárust af falli Thomas Cook, eins og sjá má í myndskeiðinu frá AFP-fréttastofunni hér að ofan.

Bresk yfirvöld segjast vera að vinna í því að hafa samband við hótel og láta þau vita af því að neyðarsjóður breska ríkisins muni stíga inn og greiða ógreiddar kröfur Thomas Cook fyrir þegar veitta þjónustu.

Thomas Cook skilur eftir sig strandaglópa um víða veröld. Hér …
Thomas Cook skilur eftir sig strandaglópa um víða veröld. Hér bíða farþegar þess að fá svör á alþjóðaflugvelli í Dóminíska lýðveldinu í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina