Skaut föður sinn fyrir mistök við villisvínaveiðar

Villisvín. Mynd úr safni.
Villisvín. Mynd úr safni. AFP

Ítölsk lögregluyfirvöld hafa ákært mann fyrir manndráp eftir að hann varð föður sínum að bana er þeir voru við villisvínaveiðar. BBC greinir frá.

Atburðurinn átti sér stað í gær í nágrenni bæjarins Postiglione í Salerno-héraði á suðurhluta Ítalíu.

Maðurinn skaut af byssu sinni þegar hann heyrði skrjáfa í gróðri og varð var við skugga. Ekki vildi hins vegar betur til en svo að skotið lenti í maga föður hans. Hann lét vita um leið hvað hefði gerst og reyndi að halda föður sínum á lífi þar til hjálparsveitir komu á staðinn.

Læknar gátu hins vegar ekki bjargað lífi föðurins, Martino Gaudioso.

Að sögn ítalskra fjölmiðla voru feðgarnir við veiðar í þjóðgarði þar sem veiðar eru bannaðar og lagði lögregla hald á rifflana sem þeir voru með.

Michela Vittoria Brambilla, formaður ítölsku náttúruverndarsamtakanna, sagði í gær ástandið víða minna á „villta vestrið“.

„Þetta er raunverulegt neyðarástand,“ sagði Brambilla.

Umhverfisráðherra Ítalíu, Sergio Costa, lagði í október í fyrra til að bann yrði lagt við veiðum á sunnudögum, en skömmu áður hafði 18 ára drengur látist í slíku slysi nálægt landamærum Frakklands. Fyrir lok þess mánaðar höfðu tveir til viðbótar látið lífið við sambærilegar kringumstæður, karlmaður á sextugsaldri og drengur á tvítugsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert