Verðmætt verk frá 13. öld í eldhúsi gamallar konu

Kristur hæddur heitir þetta verðmæta verk frá 13. öld sem …
Kristur hæddur heitir þetta verðmæta verk frá 13. öld sem uppgötvaðist nýlega í eldhúsi aldraðrar konu í Frakklandi. AFP

Málverk frá 13. öld eftir endurreisnarmeistarann Cimabue frá Flórens (1240-1302) hefur fundist í eldhúsi gamallar konu sem á heima nærri París í Frakklandi. Þar hékk málverkið beint fyrir ofan eldavélina.

Verkið heitir „Kristur hæddur“ og er talið vera á milli fjögurra og sex milljóna evra virði, eða 550-825 milljóna króna, samkvæmt frétt AFP um málið.

Málverkið er talið hluti af stærra verki Cimabues, sem málað var um árið 1280 og sýndi krossfestingu Jesú Krists í átta atriðum. Tveir hlutar sama verks hanga þegar á listasöfnum; annar í National Gallery í Lundúnum og hinn í Frick Collection í New York.

Hið fyrrnefnda var glatað öldum saman, rétt eins og það sem hefur nú uppgötvast í Frakklandi. Það fannst er breskur hefðarmaður var að taka til á háalofti sveitaseturs í Suffolk í Bretlandi og var fært breska listasafninu að gjöf.

Franska konan taldi að verkið væri bara gamalt trúarmálverk er hún fór með það til listaverkasérfræðinga til að fá það metið. Hún hefur eflaust glaðst mjög er hún frétti hið sanna, en verkið verður boðið til sölu í Acteon-uppboðshúsinu í Senlis, norðan við París, 27. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert