Boeing býður 18 milljónir fyrir hvert fórnarlamb

Brak úr þotu Ethiopian Airlines. Mynd úr safni.
Brak úr þotu Ethiopian Airlines. Mynd úr safni. AFP

Fjölskyldur sem misstu ættingja í mannskæðum flugslysum Lion Air síðasta haust og Ethiopia Airlines í febrúar á þessu ári munu fá 144.500 dollara hver í bætur frá Boeing flugvélaframleiðandanum.

Farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 Max 8 komu við sögu í báðum slysum og hafa vélar þeirrar gerðar verið kyrrsettar frá því í mars.

BBC segir féð koma úr 50 milljóna dollara fjárhagsaðstoðarsjóði sem Boeing tilkynnti um í júlí og er sjóðurinn farinn að taka  á móti kröfum sem leggja verður fram fyrir árið 2020. Um 340 manns fórust í flugslysunum tveimur.

Lögfræðingar fjölskyldna fórnarlambanna, sem margar hverjar hafa höfðað mál gegn Boeing, hafa hafnað sjóðnum og segja hann „almannatengslabrellu“.

„144.000 dollarar (um 18 milljónir) fara ekki nærri því að bæta okkar fjölskyldum eða nokkurri þeirra,“ hefur BBC eftir Texas-lögfræðingnum Normaan Husain sem fer með mál 15 fjölskyldna.

„Þetta er ekki eitthvað sem mun reynast friðþæging fyrir fjölskyldurnar. Það sem þær vilja virkilega er að fá svör.“

mbl.is