Demókratar ætla að ákæra Trump til embættismissis

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að opinbera að fullu efni samtals hans og Volodímír Selenskí, forseta Úkraínu, sem hefur verið mikið til umræðu síðustu daga. „Þið munið sjá að þetta var vingjarnlegt og algjörlega viðeigandi samtal,“ skrifaði Trump á Twitter síðdegis í dag.

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla nú síðdegis ætlar Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild þingsins, að leggja fram formlega ákæru á hendur Trump til embættismissis (e. impeachment) vegna þessa máls. Búist er við að það verði tilkynnt í kvöld.

Málið hefur valdið miklum usla á stjórnmálasviðinu vestanhafs, enda hefur komið í ljós að Trump fyrirskipaði embættismönnum sínum að setja greiðslu nærri 400 milljóna dala hernaðaraðstoðar til Úkraínumanna á ís, skömmu fyrir símtalið. Forsetinn hefur svo viðurkennt að hafa hvatt Selenskí til þess að rannsaka mál tengd Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og frambjóðanda í forvali demókrata, og syni hans Hunter Biden, sem stýrði gasfyrirtæki í Úkraínu í forsetatíð Obama.

Trump hefur neitað því að hernaðaraðstoðin hafi verið sett á ís til þess að setja pressu á Selenskí forseta um að rannsaka Biden-feðga og hefur lýst umfjöllun um málið sem nornaveiðum. Hann segist hafa fryst greiðslur til landsins til þess að setja pressu á ríki Evrópu um að veita Úkraínu fjárhagsaðstoð.

Þingmenn demókrata ráða nú ráðum sínum, en í þeirra ranni hefur krafa um Trump verður ákærður til embættismissis vegna þessa máls orðið æ háværari. Þrátt fyrir að slík ákæra yrði samþykkt í fulltrúadeildinni, þar sem demókratar hafa meirihluta, er talið ólíklegt að öldungadeildin, þar sem repúblikanar hafa meirihluta, myndi styðja við slíka ákæru.

Frétt New York Times

Frétt Washington Post

Frétt BBC

Nancy Pelosi er leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins.
Nancy Pelosi er leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins. AFP
mbl.is