Trump sakar demókrata um „nornaveiðar“

Nancy Pelosi sagði Trump hafa brotið gegn embættiseið sínum í …
Nancy Pelosi sagði Trump hafa brotið gegn embættiseið sínum í yfirlýsingu sinni í kvöld. Fulltrúadeildin, sem leidd er af demókrötum, mun hefja formlega rannsókn á meintum brotum Trumps í símtali hans við Úkraínuforseta. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings mun hefja formlega rannsókn á því hvort ákæra skuli Donald Trump til embættismissis vegna brota í starfi. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni og forseti fulltrúadeildarinnar lýsti þessu yfir á blaðamannafundi í kvöld og staðfesti þar með það sem hafði þegar kvisast út til fjölmiðla vestanhafs.

Í yfirlýsingu sinni sagði Pelosi að forsetinn hefði með símtali sínu til Volodímír Selenskí Úkraínuforseta 25. júlí síðastliðinn brotið gegn embættiseið sínum, svikið þjóðaröryggi Bandaríkjanna og vegið að heilindum forsetakosninganna sem væru framundan í Bandaríkjunum.

Trump gaf það út í dag að eftirrit af símtali hans við Selenskí yrði gert opinbert á morgun og hefur sakað demókratana í fulltrúadeildinni um bæði „nornaveiðar“ og „áreitni í garð forseta“ á Twitter-síðu sinni í kvöld.

„Þau hafa ekki einu sinni séð eftirrit af símtalinu. Algjörar nornaveiðar!“ ritaði forsetinn á Twitter-síðu sína, en hann hefur lýst símtalinu sem „vingjarnlegu“ og „algjörlega viðeigandi“.

Andstæðingar Trumps telja þó að í símtalinu hafi hann sett óeðlilega pressu á forseta erlends ríkis um að grípa til aðgerða sem gætu komið Trump vel í stjórnmálabaráttu heimafyrir, en skömmu fyrir símtalið fyrirskipaði Trump embættismönnum sínum að setja greiðslu nærri 400 millj­óna dala hernaðaraðstoðar til Úkraínu­manna á ís.

Í símtalinu ræddi hann svo við Úkraínuforseta og hvatti hann til þess að hefja rannsókn á meintri spillingu Joe Biden og sonar hans Hunter, en sá síðarnefndi tók sæti í stjórn jarðgasframleiðslufyrirtækisins Burisma Holdings árið 2014, í forsetatíð Obama, er Biden eldri var varaforseti.

Joe Biden er sem kunnugt er einn af þeim demókrötum sem keppast um að verða tilnefndir til þess að skora Trump á hólm í kosningunum á næsta ári og þykir Biden einna líklegastur til þess að verða valinn eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert