Frakkar geta ekki tekið á móti öllum

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti herti í gær á orðræðu sinni um innflytjendamál þegar hann sagði Frakka „ekki geta tekið á móti öllum“.

AFP-fréttaveitan segir Macron hafa í síðustu viku gefið í skyn að hann myndi herða innflytjendastefnuna á seinni hluta kjörtímabils síns er hann sagði stjórnvöld verða að stöðva kjósendur í að leita lengra til hægri.

„Frakkland getur ekki hýst alla ef við viljum taka vel á móti fólki,“ sagði Macron við Europe 1 útvarpsstöðina. Sagði forsetinn verulega fjölgun hafa verið í hópi þeirra sem sótt hafa um hæli í Frakklandi frá því sem var í forsetakosningunum 2017 og að þörf væri á auknu samstarfi Evrópuríkja um málið.

„Það er ekki nógu mikið samstarf í Evrópu og við verðum að skoða þennan hælisleitendafaraldur og taka ákvarðanir,“ sagði Macron.

Innflytjendastefna franska ríkisins verður til umræðu á franska þinginu í næstu viku.

Segir AFP Macron vera meðvitaðan um að helsti keppinautur hans fyrir forsetakosningarnar 2022 sé Marine Le Pen, formaður franska þjóðarflokksins, en hörð stefna flokksins í innflytjendamálum hefur aflað honum vinsælda.

„Til þess að geta boðið alla almennilega velkomna þá megum við ekki vera of fýsilegur kostur,“ sagði Macron. Kvaðst hann m.a. vilja skoða heilbrigðisþjónustuna sem umsækjendum um hæli stæði nú til boða, en ítrekaði um leið að ekki kæmi til greina að hætta með hana alfarið.

„Það væri rangt að segja að spurningin um hælisleitendur væri bannefni eða eitthvað sem bara mætti ræða þegar hættuástand skapaðist,“ sagði forsetinn.

Fyrir forsetakosningarnar 2017 jós Macron lofi þá opnu stefnu sem Angela Merkel Þýskalandskanslari viðhafði er hún leyfði yfir milljón flóttamanna að leita hælis í Þýskalandi. Sagði Macron Merkel þá hafa „bjargað sameiginlegri virðingu“ Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert