Warren farin fram úr Biden

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren.
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren. AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren nýtur nú mests fylgis í forvali bandaríska Demókrataflokksins samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar voru í dag og þar með meira fylgis en Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sem hefur allajafna verið efstur á blaði í könnunum til þessa.

Skoðanakönnunin, sem gerð var af Quinnipiac-háskóla í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum, sýnir Warren með 27% fylgi en Biden með 25%. Fram kemur í tilkynningu frá háskólanum að þó að munurinn sé innan vikmarka sé þetta engu að síður í fyrsta sinn síðan í mars sem Warren mælist með meira fylgi en Biden í könnunum hans.

AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders mældist í þriðja sæti með 16% og þá Pete Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana-ríki, með 7%. Öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris er fimmta í röðinni með 3%.

Skoðanakönnun Quinnipiac-háskóla í ágúst sýndi Biden með 32%, Warren með 19% og Sanders með 15%. Rifjað er upp í frétt AFP að önnur nýleg könnun hafi bent til þess að Warren væri í fyrsta sinn með meira fylgi í Iowa-ríki en kosið verður fyrst í því ríki í forkosningum demókrata í byrjun febrúar samkvæmt áætlun.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert