Efni kvörtunarinnar „óhugnanlegt“ en „trúverðugt“

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Nefndarmenn leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings fengu í gær að sjá kvörtunina sem starfsmaður bandarískrar leyniþjónustustofnunar lagði fram gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta. Kvörtunin leiddi fyrr í vikunni til þess full­trúa­deild Banda­ríkjaþings ákvað að hefja form­lega rann­sókn á því hvort ákæra skuli Trump til emb­ætt­ismissis vegna brota í starfi. 

Einn demókratanna í nefndinni hefur lýst upplýsingunum sem þar koma fram sem „óhugnanlegum“ og repúblikanaþingmaður í nefndinni sagði þær „áhyggjuefni“. Sagði formaður nefndarinnar Adam Schiff við fjölmiðla að loknum fundi nefndarinnar að kvörtunin ljóstraði upp um alvarleg embættisbrot. „Mér fannst þessar ásakanir óhugnanlegar, en mér fannst þær líka trúverðugar,“ sagði Schiff.

Að sögn bandarískra fjölmiðla snýr kvörtunin að umdeildu símtali sem Trump átti við Volodomyr Zelenskí forseta Úkraínu fyrr í sumar þar sem Trump þrýsti á forsetann að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda.

Afrit af símtali þeirra Trumps og Zelenskís var gert opinbert í gær og síðar um kvöldið greindi einn ráðgjafa Zelenskís frá því að Trump hefði tekið það skýrt fram að mál Bidens væri skilyrði þess að forsetarnir ræddust við. Trump neitar því hins vegar að hafa þrýst á Zelenskí þó að mál Bidens hafi verið rætt.

BBC segir uppljóstrun leyniþjónustustarfsmannsins verða áfram til meðferðar hjá njósnanefndinni í dag, en þá mun Joseph Maguire, settur yfirmaður bandarískra leyniþjónustustofnana, koma fyrir nefndina. CNBC greindi frá því í gær að Maguire hefði hótað að segja af sér myndi Hvíta húsið hindra hann í að bera vitni fyrir nefndinni, en sjálfur hefur hann neitað þessu.  

Leynd ríkir enn yfir efnisinnihaldi kvörtunarinnar, en demókratinn og öldungadeildarþingmaðurinn Chuck Schumer, hefur hvatt til þess að það verði gert opinbert hið fyrsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert