Mátu viðbrögð flugmanna MAX-þotanna ranglega

Rúmt hálft ár er síðan allar 737 MAX þotur Boeing …
Rúmt hálft ár er síðan allar 737 MAX þotur Boeing voru kyrrsettar eft­ir tvö gríðarlega mannskæð flug­slys í Indó­nes­íu og Eþíóp­íu með nokkurra mánaða millibili þar sem 346 manns létu lífið. AFP

Sérfræðingar Boeing og bandaríska loftferðaeftirlitsins mátu viðbrögð flugmanna rangt þegar þeir lentu í erfiðleikum við að stjórna 737 MAX-þotunum. Þetta er niðurstaða samgönguöryggisnefndar Bandaríkjanna (NTSB). Í nýútkominni skýrslu nefndarinnar er lagt til að hönnun þotanna verði endurskoðuð sem og þjálfun flugmanna þotanna. 

Rúmt hálft ár er síðan allar 737 MAX þotur Boeing voru kyrrsettar eft­ir tvö gríðarlega mannskæð flug­slys í Indó­nes­íu og Eþíóp­íu með nokkurra mánaða millibili þar sem 346 manns létu lífið. 

„Við sjáum í þessum tveimur slysum að áhöfnin brást ekki við eins og Boeing og bandaríska loftferðaeftirlitið höfðu gert ráð fyrir,“ sagði Robert Sumvalt, formaður NTSB, þegar skýrslan var kynnt í dag. 

Nefndin leggur til að farið verði alfarið yfir hönnun þotanna og að þjálfun flugmanna verði byggð á þeim viðbrögðum sem flugmenn þotanna tveggja sýndu í þeim aðstæður sem þeir lentu í sem urðu til þess að þoturnar brotlentu. 

Talsmaður loftferðaeftirlitsins segir að ítarlega verði farið yfir niðurstöður skýrslunnar sem og önnur gögn sem varpa ljósi á rannsókn slysanna. Talsmaður Boeing segir að ekki sé gert ráð fyrir að þotunum verði flogið að nýju fyrr en eftir áramót.

mbl.is

Bloggað um fréttina