Ætla að taka á móti 40% færri flóttamönnum en í ár

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Bandarísk stjórnvöld segja að fjöldi hælisleitenda …
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Bandarísk stjórnvöld segja að fjöldi hælisleitenda sem komi yfir landamærin frá Mexíkó leggi „gífurlegar byrðar“ á þarlend yfirvöld. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla að taka á móti 40% færri flóttamönnum næsta árið en þau hafa hingað til gert í forsetatíð Donalds Trumps. BBC hefur eftir bandaríska utanríkisráðuneytinu að tekið verði á móti 18.000 flóttamönnum næstu 12 mánuði og hafa þeir ekki verið færri frá því árið 1980.

Eru Írakar sem hafa aðstoðað bandaríska herinn þar í landi og minnihlutahópa sem eru ofsóttir vegna trúar sinnar meðal þeirra sem tekið verður á móti.

Mannréttindasamtök hafa þegar fordæmt ákvörðunina og sagði Samantha Power, fyrrverandi fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ákvörðunina vera „viðurstyggilega“.

BBC segir Trump einnig hafa undirritað forsetatilskipun sem heimilar sveitarstjórnum og stjórnum ríkja Bandaríkjanna að neita að taka á móti flóttamönnum. Sagði forsetinn tilskipunina tryggja að „flóttamenn settust að í samfélögum sem væru reiðubúin og áköf að styðja vel heppnaða aðlögun þeirra að bandarísku þjóðfélagi og vinnumarkaði“.

Innflytjendamálin hafa verið eitt af helstu stefnumálum Trumps frá því hann settist á forsetastól. Árið 2017 heimilaði forsetinn að tekið yrði á móti 50.000 flóttamönnum, árið eftir var fjöldinn minnkaður niður í 45.000 og svo niður í 30.000 í ár. Þá höfðu Bandaríkin  frá því að núverandi kerfi var tekið upp eingöngu tekið á móti færri flóttamönnum árið 2002 í kjölfar árásanna á Tvíburaturnanna, en það ár var tekið á móti 27.000 flóttamönnum. Tekið var á móti 85 þúsund flóttamönnum á síðasta ári Baracks Obama, forvera Trumps í embætti.

Í yfirlýsingu frá bandarískum stjórnvöldum segir að fjöldi hælisleitenda sem komi yfir landamæri Bandaríkjanna frá Mexíkó  leggi „gífurlegar byrðar“ á yfirvöld. „Það verður að draga úr byrðinni á bandaríska innflytjendakerfið áður en hægt verður að taka á móti fleiri flóttamönnum,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert