Mikið magn örplasts í tepokanum

Ætli þessi tepoki innihaldi örplast?
Ætli þessi tepoki innihaldi örplast? mbl.is/iStock

Mjólk, sykur eða örplast? Tebollinn kann að innihalda meira en áður var talið, en samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við McGill-háskólann í Kanada þá losna um 11,6 milljarðar örplastagna og 3,1 milljarður enn smærri nanóplastagna úr tepokanum og í bollann þegar te er lagað.

Guardian greinir frá og segir þetta töluvert meira magn en hingað til hefur verið talið að meðalmaðurinn neyti árlega. Samkvæmt rannsókn sem birt var fyrr á þessu ári er talið að meðalmaðurinn innbyrði að minnsta kosti 50.000 örplastagnir árlega í gegnum mat og drykk og að hann andi að sér svipuðu magni.

Rannsóknin var gerð á fjórum mismunandi gerðum tepoka sem finna mátti í verslunum og kaffihúsum í Montreal. Tepokarnir fjórir innihéldu allir plast. Voru þeir skornir í sundur, þvegnir og því næst látnir liggja í 95 gráða heitu vatni í fimm mínútur áður en rannsóknin var gerð. Sýndi hún fram á að einn einasti tepoki sleppti frá sér rúmlega 11,6 milljörðum plastagna, að því er fram kom í rannsókninni sem birt var í vísindatímaritinu Environmental Science and Technology.

Flestir tepokar eru gerðir úr náttúrulegum trefjum, en margar tegundir eru engu að síður innsiglaðar með plasti. Þá hafa sumir framleiðendur sem áður notuðu pappír í pokana nú flutt sig yfir í plastpoka og segir Guardian að það hafa verið plastpokarnir sem voru rannsakaðir.

Örplast er örsmáar plastagnir sem eru minni enn 5 millimetrar í stærð og sem nær eingöngu verða til er plastrusl brotnar niður.

Örplast hefur fundist í andrúmslofti, jarðvegi, ám og úthöfum um heim allan, sem og í bæði krana- og flöskuvatni.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir engar vísbendingar enn hafa komið fram sem bendi til þess að fólki stafi hætta af því að innbyrða  örplast. WHO hefur þó einnig sagt að frekari rannsókna sé þörf til að skilja megi til fulls hvernig örplast dreifist um umhverfið og endi í mannslíkamanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert