Segja Gretu Thunberg „truflaðan messías“

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er ósátt með þá sem sýna henni ...
Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er ósátt með þá sem sýna henni vanvirðingu. AFP

„Þeir sem vilja mér illt hafa aldrei verið jafn virkir,“ sagði sænski aðgerðarsinninn Greta Thunberg á Twitter í vikunni. 

„Þeir ráðast að mér, útliti mínu, fatnaði, hegðun og því sem gerir mig ólíka öðrum,“ sagði Greta og bætti því við að þessir einstaklingar töluðu um hvað sem væri í stað þess að tala um loftslagsvána. 

Þessir aðilar hafa þó ekki staðið í vegi fyrir henni. Síðastliðinn föstudag leiddi hún annað loftslagsverkfall í Montreal í Kanada. Þar krafðist hún alþjóðlegra aðgerða sem myndu miða að því að minnka kolefnisfótspor mannkynsins. 

Á Twitter var hún þó augljóslega mjög pirruð á því hvernig fólk gagnrýndi hana og sakaði fólk um að „fara yfir öll mörk til að beina athylginni frá loftslagsmálum“ með því sem hún kallar lygar og samsæriskenningar. 

Hló að Trump

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er líklega einn valdamesti maðurinn sem hefur gert grín að Thunberg en hann virtist hæðast að henni þegar hann setti færslu á Twitter þar sem hann sagði Thunberg „hamingjusama unga stelpu sem horfði bjartsýn til yndislegrar framtíðar“.

Thunberg hló að ummælum hans í viðtali við sænsku sjónvarpsstöðina SVT og sagði „ég vissi að hann myndi segja eitthvað um mig“. 

Ýmsir hafa þó sett fram meira móðgandi ummæli en Trump og BBC tók saman nokkur af þeim verstu. 

Breska dagblaðið The Sun hefur sagt að Thunberg sé stjórnað af orkurisum og ýtnum frægðarþyrstum foreldrum. Í grein dagblaðsins er sérstaklega tekið fram að móðir Thunberg hafi eitt sinn tekið þátt í Eurovision og að hún vilji enn meiri frægð. 

Átrúnaðargoð með geðraskanir

Ástralskt dagblað sagði Thunberg „virkilega truflaðan messías umhverfishreyfingarinnar.“

„Ég hef aldrei séð stúlku sem er svo ung og með svo margar geðraskanir sem svo margir fullorðnir einstaklingar koma fram við sem átrúnaðargoð,“ sagði dálkahöfundurinn Andrew Bolt í dagblaðið Herald Sun

mbl.is