Tóku „þúsundir“ Sádi-Araba til fanga

Uppreisnarmenn húta.
Uppreisnarmenn húta. AFP

Uppreisnarmenn húta í Jemen segjast hafa tekið til fanga mikinn fjölda hermanna frá Sádi-Arabíu eftir stórfellda árás húta á landamæri Jemens og Sádi-Arabíu. 

Talsmaður húta sagði fréttamanni BBC að þrjár sádiarabískar hersveitir hefðu gefið sig á vald húta nálægt bænum Najran í Sádi-Arabíu. Sagði hann fangana skipta þúsundum auk þess sem fjölmargir hermenn hefðu fallið í valinn við árásina. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ekki staðfest þessar fullyrðingar húta. 

Tvær vikur eru síðan hútar lýstu á hendur sér dróna- og eldflaugaárásum á tvær olíuvinnslustöðvar ríkisolíufélags Sádi-Arabíu, Aramco, sem hefur haft nokkur áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. 

Sádi-Arabar sem njóta stuðnings Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands, hafa þrátt fyrir fullyrðingar húta kennt stjórnvöldum í Íran um árásinar. 

Borgarastyrjöldin í Jemen hefur staðið yfir frá árinu 2015 þegar Jemensforseti Abdrabbuh Mansour Hadi og ríkisstjórn hans neyddust til að flýja höfuðborgina Sanaa vegna innrásar húta. Nær yfirráðasvæði húta nú yfir mestallan norðurhluta landsins. 

Sádi-Arabar styðja Hadi forseta og leiða bandalag nokkurra ríkja gegn hútum sem Íranar styðja. Bandalag Sáda hleypa af loftárásum nánast á hverjum degi á meðan hútar hafa ítrekað skotið flugskeytum yfir landamærin til Sádi-Arabíu. 

Borgarastyrjöldin hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir almenna borgara Jemens. Um 80% íbúa, yfir 24 milljónir Jemena, þurfa á mannúðaraðstöð að halda, þar á meðal reiða 10 milljónir íbúa sig á mataraðstoð góðgerðarsamtaka til að draga fram lífið. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa yfir 70.000 manns látið lífið síðan 2016 sökum styrjaldarinnar.

Borgarastyrjöldin hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa Jemen. Hér má …
Borgarastyrjöldin hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa Jemen. Hér má sjá hina sjö ára gömlu Samar Ali Jaid í flóttamannabúðum í dag, en Samar þjáist af vannæringu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert