Sprautuðu bláu vatni á mótmælendur

Lögregla í Hong Kong sprautar bláu vatni á mótmælendur við …
Lögregla í Hong Kong sprautar bláu vatni á mótmælendur við stjórnarbygginguna. AFP

Lögregla í Hong Kong sprautaði bláu vatni á mótmælendur og beitti táragasi í mótmælum helgarinnar. Mótmælendur köstuðu á móti bensínsprengjum og múrsteinum í lögreglu.

Þúsundir tóku þátt í mótmælunum í verslanahverfi Hong Kong í dag, þó að ekki hefði verið fengið leyfi fyrir göngunni. Er þetta 17. helgin í röð þar sem mótmælt er í borginni og heldur spenna milli mótmælenda og lögreglu áfram að magnast, ekki hvað síst vegna 70 ára afmælis Alþýðulýðveldisins Kína sem efnt verður til mikilla hátíðahalda vegna næsta þriðjudag.

CNN sjónvarpsstöðin segir mótmælin í dag hafa framan af farið friðsamlega fram, en komið hafi til átaka milli lögreglu og mótmælenda þegar leið á daginn. Þá kveiktu mótmælendur elda á götum og köstuðu bensínsprengjum og múrsteinum.

Lögregla beitti hins vegar táragasi og piparúða gegn mótmælendum og sprautaði á þá blálitu vatni sem á að auðvelda yfirvöldum að bera kennsl á þá síðar, m.a. til að vísa fólki frá svæðinu við þinghús borgarinnar þar sem iðulega hefur verið mótmælt undanfarnar vikur.

CNN segir Kínverja og kínversk yfirvöld nú á fullu að undirbúa hátíðarhöldin á þriðjudag. Þá mun Xi Jinping, forseti Kína, hafa yfirumsjón með sérstakri hersýningu í Peking sem um 15.000 hermenn og 160 herflugvélar taka þátt í. Mun Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, verða meðal þátttakenda í hátíðarhöldunum í Peking.

Í Hong Kong eru mótmælendur hins vegar þegar farnir að búa sig undir frekari mótmæli á þjóðhátíðardaginn og segir CNN kínversk stjórnvöld nú setja mikinn þrýsting á yfirvöld í Hong Kong að tryggja að mótmæli í borginni skyggi ekki á hátíðarhöldin í Peking.

Lögregla úðar hér piparúða á hóp sem tekur þátt í …
Lögregla úðar hér piparúða á hóp sem tekur þátt í mótmælagöngu sem boðað var til án leyfis yfirvalda. AFP
Lögregla beitir táragasi gegn mótmælendum í Wanchai hverfinu.
Lögregla beitir táragasi gegn mótmælendum í Wanchai hverfinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert