70 ára afmæli fagnað í skugga mótmæla

„Ekkert afl getur hreyft við stöðu þessa mikla lands,“ sagði ...
„Ekkert afl getur hreyft við stöðu þessa mikla lands,“ sagði Xi Jinping. AFP

Kínverjar fagna 70 ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína í dag, en það var á þessum degi árið 1949 sem leiðtogi Kommúnistaflokksins, Mao Zedong, tilkynnti um stofnun þess á Torgi hins himneska friðar í kjölfar borgarastyrjaldar.

„Ekkert afl getur hreyft við stöðu þessa mikla lands,“ sagði Xi Jinping, forseti Kína, þegar hann ávarpaði hátíðarsamkomuna á Torginu í dag.

Þar fer fram í dag gríðarstór hersýning þar sem 15.000 hermenn taka þátt og nýr herbúnaður kínverska ríkisins er til sýningar. Sýningin í dag þykir til marks um þann gríðarlega árangur sem náðst hefur í Kína síðan Kommúnistaflokkurinn kom til valda, en í kjölfar borgarastyrjaldarinnar hafði ríkið einungis 17 herflugvélum að skarta og voru sumar þeirra látnar fljúga tvisvar yfir þennan dag fyrir 70 árum þegar Mao tilkynnti um stofnun alþýðulýðveldisins.

Á Stræti og Torgi hins himneska friðar fer fram í ...
Á Stræti og Torgi hins himneska friðar fer fram í dag gríðarstór hersýning þar sem 15.000 hermenn taka þátt og nýr herbúnaður kínverska ríkisins er til sýningar. AFP

Árangur Kommúnistaflokksins í efnahagslegri uppbyggingu landsins hefur komið mörgum í opna skjöldu en minni áhersla er lögð á mannréttindi í stjórn flokksins.

Stærsta áskorunin frá blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar

En dagurinn í dag markar einnig aðra stærstu áskorun ríkisstjórnar Kína frá stofnun alþýðulýðveldisins, á eftir fjöldamorði kínverska hersins á mótmælendum á Torgi hins himneska friðar á 40 ára afmæli alþýðulýðveldisins 1989, en fjöldamótmæli í Hong Kong setja mark sitt á 70 ára afmælið.

Mótmælendur í Hong Kong hafa kallað daginn í dag dag sorgar og hafa þeir tekist hart á við lögreglu í sjálfsstjórnarborginni. Hafa mótmælendur það að markmiði að draga athyglina frá hátíðarhöldum yfirboðara sinna og krefjast aukins sjálfstæðis.

Mótmælendur í Hong Kong brenna kínverska fánann.
Mótmælendur í Hong Kong brenna kínverska fánann. AFP

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina