Fragtskipin ábyrg fyrir plasti í hafinu

Plastflöskur. Mynd úr safni.
Plastflöskur. Mynd úr safni. AFP

Afskekkt eyja í suðurhluta Atlantshafsins beinir nú kastljósinu að því hversu útbreitt vandamál plastmengun í hafinu er og að uppruni plastsins sé ekki endilega sá sem menn töldu í fyrstu.

Um 75% af plastflöskunum, sem rekið hefur á land á hinni svonefndu Inaccessible Island-eyju, óvirkri eldfjallaeyju sem tilheyrir Tristan da Cunha-eyjaklasanum, komu nefnilega frá Asíu — þar af flestar frá Kína.

BBC hefur eftir vísindamönnunum sem vöktu athygli á þessu að flestar flöskurnar séu nýlegar, sem bendi til þess að þeim hafi verið hent fyrir borð af skipum.

Talið er að um 12,7 milljónir tonna af plasti endi í hafinu ár hvert. Þær tölur taka þó eingöngu til þess plastrusls sem berst af landi á haf út. Teymi vísindamanna sem ritaði nýlega grein í vísindatímaritið Proceedings of the National Academy of Sciences segja það líka hafa verið trú manna til þessa að þaðan bærist megnið af plastinu. Þessi nýi fundur bendir hins vegar til þess að svo sé ekki.



„Þegar við vorum [á Inacessible Island-eyjunni] í fyrra var áfall að sjá hversu mikið var þar af plastflöskum,“ segir Peter Ryan, framkvæmdastjóri afrísku FitzPatrick-fuglafræðistofnunarinnar, sem hafði yfirumsjón með rannsókninni

Eyjan er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Árið 2009 rannsökuðu vísindamenn 3.515 plastmuni og mola sem fundust þar. Í fyrra rannsökuðu þeir 8.084 slíka hluti. Algengasta ruslið voru svo kallaðar PET-plastflöskur og það rusl sem mest aukning var af. Elsta ruslið var hins vegar pólýetýlen-plastbrúsi sem var framleiddur árið 1971.

Flestar plastflöskurnar voru hins vegar með stimplaðri dagsetningu sem var innan við tveggja ára gömul. „Þegar maður fer að skoða málin er hægt að komast að miklu út frá flöskum, jafnvel þó að þær séu ekki með miða á,“ segir Ryan.

„Þær eru með dagsetningu og stimpli framleiðanda og þegar maður þekkir orðið ólíka framleiðendur getur maður komist að því hvaðan þær koma.“

Það hafi hins vegar verið áfall að uppgötva að upprunastaður plastsins var annar en áður. Hann var ekki lengur Suður-Ameríka, líkt og búast mætti við á þessum stað vegna vinda og hafstrauma, heldur hafi plastflöskurnar að miklum meirihluta verið asískar.

„Á þeim þremur mánuðum sem við dvöldum á eyjunni komu 84% af flöskunum frá Asíu,“ útskýrir hann.

Ryan segir að þegar horft sé til þess hversu nýlegar flöskurnar voru og að þær komi aðallega frá Asíu, og þá einna helst frá Kína, megi telja ljóst að þær hafi ekki borist þangað langa leið með hafstraumunum, heldur hafi þeim verið kastað frá borði skipa sem áttu leið um.

„Mín fyrsta hugsun var að þetta væri frá fiskiskipaflotanum, þar sem fiskiskipin eru oft aðeins löglausari en fragtskipin. Sú staðreynd að þær eru aðallega kínverskar stemmir eiginlega ekki við það af því að fiskiskipaflotarnir á Suður-Atlantshafi eru aðallega taívanskir og japanskir,“ segir Ryan.

„Ég held að sannanirnar fyrir því að þetta komi frá fragtskipum séu því nokkuð sterkar. Þetta eru þær slóðir þar sem við höfum síðastliðinn áratug séð mikla aukningu í fragtskipaumferð, sérstaklega milli Suður-Ameríku og Asíu. Þetta var þó ákveðið áfall af því að ég hafði gefið mér að fragtskipaflotinn hlýddi sæmilega vel [alþjóðasamþykktum um að kasta ekki rusli fyrir borð].“

Segir Ryan fundinn kalla á að skoða þurfi betur eftirlit með skipunum og að reglunum sé fylgt eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert