Norðurkóreski herinn skaut eldflaug frá kafbáti

Herinn í Norður-Kóreu skaut tveimur eldflaugum á loft í gær, …
Herinn í Norður-Kóreu skaut tveimur eldflaugum á loft í gær, degi eftir að stjórnvöld í Pyongyang tilkynntu að þau væru reiðubúin að hefja viðræður um kjarnorkuafvopnun við Bandaríkin að nýju. AFP

Herinn í Norður-Kóreu skaut tveimur eldflaugum á loft í gær, og svo virðist sem annarri þeirra hafi verið skotið frá kafbáti, að því er stjórnvöld í Seoul í Suður-Kóreu greina frá. Eldflaugarnar höfnuðu í Japanshafi og varnarmálayfirvöld í Japan fullyrða að önnur eldflaugin hafi lent innan efnahagslögsögu Japans. 

Ef rétt reynist að norðurkóreski herinn búi nú yfir þeirri getu að skjóta eldflaugum frá kafbátum eykur það hernaðarmátt Norður-Kóreu til muna. 

„Eldflaugaskot líkt og þessi hjálpa ekki til við að slaka á spennunni á Kóreuskaga og við hvetjum Norður-Kóreu til að hætta þessum aðgerðum þegar í stað,“ segir í sameiginlegri tilkynningu frá yfirvöldum í Suður-Kóreu og Japan. Þá segir Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, að skotin brjóti gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. 

Aðeins tveir dagar eru síðan stjórnvöld í Pyongyang tilkynntu að þau væru reiðubúin að hefja viðræður um kjarnorkuafvopnun við Bandaríkin að nýju, en lítið hefur dregið til tíðinda í þeim efnum síðustu mánuði. Í síðasta mánuði sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti til að mynda að það væri ekki tímabært að heimsækja Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Í fyrradag tilkynnti Choe Son Hui, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, að ríkisstjórn landsins hefði samþykkt að hefja viðræður við bandarísk stjórnvöld að nýju í þessari viku. Morgan Ortagus, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, staðfesti þetta en nú er að bíða og sjá hvað verður í kjölfar eldflaugaskota Norður-Kóreu í gær. 

Bandarísk stjórnvöld segjast fylgjast með aðgerðum norðurkóreskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert