Tillaga Bretlands lögð fram í dag

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretland, ávarpar landsfund Íhaldsflokksins í dag.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretland, ávarpar landsfund Íhaldsflokksins í dag. AFP

Tillaga ríkisstjórnar Bretlands að útgöngusamningi við Evrópusambandið verður kynnt opinberlega síðar í dag en tillagan gerir ráð fyrir að Bretar yfirgefi tollabandalag og inni markað sambandsins árið 2021 með fríverslunarsamningi við það en Norður-Írland verði áfram að miklu leyti hluti af innri markaðinum.

Fjórum árum síðar, árið 2025, getur norðurírska þingið ákveðið hvort Norður-Írland mun búa áfram við það fyrirkomulag, sem þýðir að ólíkt regluverk á ýmsum sviðum á milli Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og tollgæslu á landsmærum Norður-Írlands og Írlands, eða segja skilið við innri markað Evrópusambandsins.

Tillagan var kynnt í gær fyrir ríkisstjórnum stærstu ríkja Evrópusambandsins samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph. Talið er líklegt að tillagan, sem forystumenn sambandsins höfðu kallað eftir, mæti mikilli andstöðu í röðum þeirra. Ekki síst er búist við að mikil andstaða komi frá írskum ráðamönnum.

AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fjallaði um tillöguna í ávarpi sínu á landsfundi breska Íhaldsflokksins í dag og sagði að um væri að ræða sanngjarna og skynsama málamiðlun. Kjósendur vildu að stjórnvöld kláruðu útgönguna úr Evrópusambandinu svo þau gætu farið að einbeita sér að öðrum málum.

Verkamannaflokkurinn undir forystu Jeremys Corbyn vildi hins vegar halda óvissunni áfram með nýju þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu og nýrri atkvæðagreiðslu um mögulegt sjálfstæði Skotlands þrátt fyrir að kjósendum þrátt fyrir að kjósendum hefði verið heitið að um niðurstöðurnar yrðu virtar.

Fram kemur í fréttinni að Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Johnsons, hafi varað við því að Bretland muni ganga frá samningaborðinu verði Evrópusambandið ekki tilbúið að skoða tillöguna alvarlega. Bretar myndu ekki bíða eftir því að sambandið væri reiðubúið að semja. Höfnuðu þeir tillögunni væru Bretar farnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert