Pútín ekki hrifinn af Thunberg eins og „allir hinir“

Vladimir Putin Rússlandsforseti segir engan hafa útskýrt fyrir Gretu Thunberg …
Vladimir Putin Rússlandsforseti segir engan hafa útskýrt fyrir Gretu Thunberg hversu flókinn nútímaheimurinn sé og að hann breytist hratt. AFP

„Ég gæti valdið ykkur vonbrigðum, en ég er ekki jafn hrifinn og allir hinir af ræðu Gretu Thunberg,“ játaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í pallborðsumræðum á orkumálaráðstefnu sem fram fer um þessar mundir í Moskvu. 

Pútín segir ungt fólk í dag aðeins veita vandamálum nútímans athygli, líkt og loftslagsvánni. „Það er hið besta mál. Við þurfum að styðja þau. En þegar einhver notar börn og unglinga í eigin þágu er ekki annað hægt en að fordæma það.“

Orðum Pútíns svipar óneitanlega til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í Silfrinu síðastliðinn sunnudag. Þar sagði hann það óviðeigandi að nota barn í pólitískri baráttu á heimsvísu. Minntist hann á Thunberg og sagði hana mæta fyrir Sameinuðu þjóðirnar, „nánast grátandi af skelfingu, sem var örugglega raunveruleg“. 

Pútín sagði engan hafa útskýrt fyrir Thunberg hversu flókinn nútímaheimurinn sé og að hann breytist hratt. 

Thunberg hélt inn­blásna ræðu um lofts­lags­mál á leiðtoga­fundi Sam­einuðu þjóðanna í New York í síðasta mánuði þar sem hún lýsti með mikl­um tif­inn­inga­hita hvernig leiðtog­ar heims væru að svíkja henn­ar kyn­slóð með því að láta hjá líða að grípa til nægra aðgerða gegn lofts­lags­vánni. 

Pútín bætist í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt framkomu Thunberg. Hún hefur þegar svarað þeim á Twitter þar sem hún er aug­ljós­lega mjög pirruð á því hvernig fólk gagn­rýndi hana og sakaði fólk um að „fara yfir öll mörk til að beina at­hylg­inni frá lofts­lags­mál­um“ með því sem hún kall­ar lyg­ar og sam­særis­kenn­ing­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert