Rafskútuskemmdarvargur handtekinn í skjóli nætur

Lögreglan í Fort Lauderdale fylgdi Williams eftir þegar hann gekk …
Lögreglan í Fort Lauderdale fylgdi Williams eftir þegar hann gekk á milli rafskúta í hverfinu og klippti á bremsurnar. Skjáskot/YouTube

Lögreglan í Fort Lauderdale í Flórída handtók um helgina mann á sextugsaldri sem fór í skjóli nætur og klippti á bremsuvíra fjölda rafskúta í suðausturhluta borgarinnar. 

Randall Thomas Williams vildi ekki segja lögreglu hvað honum gekk …
Randall Thomas Williams vildi ekki segja lögreglu hvað honum gekk til þegar hann klippti á bremsur fjölda rafskúta í borginni Fort Lauderdale í Flórída um helgina. Ljósmynd/Lögreglan í Fort Lauderdale

Nátthrafninn Randall Thomas Williams klæddist stuttermaskyrtu, stuttbuxum og sandölum og var vopnaður tvennum vírklippum, lítilli töng og hanska þegar hann lagði til atlögu. Hann var handtekinn á sunnudag, grunaður um að hafa klippt á bremsur á yfir 20 rafskútum en skemmdir hafa verið unnar á að minnsta kosti 140 rafskútum í borginni frá því í vor. 

Lögreglan hafði fengið ábendingu helgina áður um að Williams stundaði það að eyðileggja rafskútur og hafði því eftirlit með honum um nýliðna helgi. Þegar lögregla handtók hann óskaði Willams eftir lögmanni þar sem hann „vildi ekki grafa sína eigin gröf“. 

Rafskúturnar sem voru skemmdar báru flestar sömu ummerki, búið var að klippa á bremsurnar og setja límmiða fyrir kóða til að koma í veg fyrir að hægt væri að virkja rafskúturnar með snjalltæki. Flest hinna skemmdu hjóla fundust í næstu tveimur götum við heimili Williams. Áætlaður kostnaður vegna skemmdanna á rafskútunum nemur um 1.400 dollurum eða rúmum 170 þúsund krónum.  

Fjaðrafok vegna rafskúta í borginni

Í yfirheyrslum hjá lögreglu vildi Williams ekki tjá sig um hvað honum gekk til með skemmdarverkunum. Rafskútur hafa verið uppspretta þó nokkurra deilna í borginni síðustu misseri en í júní var notkun rafskúta bönnuð á strönd borgarinnar. Þá hefur notkun skútanna verið bönnuð á fjölsóttum viðburðum, svo sem tónlistarhátíðum og í kringum vorfrí háskólanema. 

Þjófnaður og skemmdarverk á rafskútum komu ítrekað inn á borð lögreglu í sumar. Í júlí voru skemmdir unnar á 51 rafskútu hjá rafskútuleigunni Lime. Öryggismyndavélar sýna hvítan karlmann með vírklippur í hönd á vappi í kringum hjólin. 

Rafskútur hafa valdið töluverðu fjaðrafoki í Fort Lauderdale í Flórída …
Rafskútur hafa valdið töluverðu fjaðrafoki í Fort Lauderdale í Flórída upp á síðkastið. Notkun þeirra var bönnuð við strönd borgarinnar í sumar sem og á fjölsóttum viðburðum líkt og tónlistarhátíðum. AFP

„Eyðilegging á eignum annarra er ekki bara glæpur, það er stórhættulegt og stofnar lífi þeirra í hættu sem treysta á þessa tegund samgangna,“ segir talsmaður Lime í tilkynningu. 

Williams er grunaður um að hafa unnið skemmdir á rafskútunum í eigu Lime og þá hefur hann verið ákærður vegna verknaðarins um helgina. Hann var hins vegar látinn laus gegn tryggingu á mánudag.

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert