Stakk fjóra lögreglumenn til bana

Mikill viðbúnaður er við höfuðstöðvar lögreglu vegna árásarinnar, en þær …
Mikill viðbúnaður er við höfuðstöðvar lögreglu vegna árásarinnar, en þær eru staðsettar í næsta nágrenni við Notre Dame-dómkirkjuna í miðborg Parísarborgar. AFP

Maðurinn sem lögregla skaut til bana við höfuðstöðvar lögreglunnar í París fyrr í dag stakk fjóra lögreglumenn til bana áður en lögregla náði að stöðva hann. Árásin átti sér stað um hádegisbil og er hún sú mannskæðasta sem franska lögreglan hefur orðið fyrir um árabil.

Fram kemur í frétt AFP að árásarmaðurinn hafi verið borgaralegur starfsmaður í höfuðstöðvum lögreglunnar, en ekki kemur fram við hvað hann fékkst nákvæmlega í starfi sínu.

Samkvæmt frétt AFP telja rannsakendur að vinnustaðardeila hafi mögulega valdið því að maðurinn lét til skarar skríða gegn vinnufélögum sínum, en frekari upplýsingar um tilefni árásinnar liggja ekki fyrir.

Í frétt New York Times er haft eftir Loïc Travers, formanni stéttarfélags lögreglumanna í París, að svo virðist sem maðurinn hafi fyrst ráðist á þá sem deildu með honum skrifstofurými áður en hann færði sig í önnur herbergi hússins.

Travers sagði fréttamönnum að maðurinn hefði starfað fyrir lögregluna í um 20 ár og að hann hefði aldrei verið til nokkurra vandræða á starfsferli sínum þar.

Mikil skelfing greip um sig er árásin átti sér stað. „Fólk var að hlaupa út um allt, það var grátur úti um allt,“ segir Emery Siamandi, túlkur sem var í höfuðstöðvum lögreglu, í samtali við AFP.

„Ég heyrði skot og áttaði mig á því að það væri innandyra. Andartökum seinna sá ég lögregluþjóna grátandi. Þau voru ofsahrædd,“ segir Siamandi.

Mikill viðbúnaður er við höfuðstöðvar lögreglu vegna árásarinnar, en þær eru staðsettar í næsta nágrenni við Notre Dame-dómkirkjuna í miðborg Parísar.

Árásin í dag kemur í kjölfar umfangsmikilla mótmælaaðgerða lögreglumanna í borginni, en í gær héldu tugþúsundir þeirra út á götur til þess að mótmæla bágum vinnuaðstæðum, skorti á virðingu frá almenningi og fjölda sjálfsvíga á meðal lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert