Bærinn þar sem æskan hverfur

Tasiilaq á Grænlandi.
Tasiilaq á Grænlandi.

Fimmta hvert barn á Grænlandi verður fyrir kynferðisofbeldi. Algengast er að stúlkur yngri en 12 ára verði fyrir ofbeldinu og meira en helmingur tilkynninganna varða kynferðisofbeldi gegn börnum sem eru yngri en 15 ára. Grænlenska þingið leitaði nýverið liðsinnis danskra stjórnvalda til að fást við vandann. Í 3.000 manna smábæ var tilkynnt um hátt í 200 kynferðisbrot á árunum 2014 til 2018.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu grænlensku lögreglunnar.

Hann hefur verið kallaður „bærinn þar sem æskan hverfur“; bærinn Tasiilaq á suðausturströnd Grænlands.  Í skýrslunni er fjallað um fjölda kynferðisbrota í bænum og lagðar til aðgerðir til að stemma stigu við ofbeldinu. Fram kemur að áfengisneysla hafi tengst a.m.k. fjórðu hverri tilkynningu um ofbeldi og að gerendurnir séu oftast karlar á aldrinum 15-30 ára. Ofbeldisverkin eru yfirleitt framin á heimilum. Í skýrslunni segir að 27% af öllum tilkynningum um kynferðisofbeldi gagnvart börnum á Grænlandi tengist Tasiilaq, en þar búa um 5% Grænlendinga.

Í skýrslunni kemur einnig fram að á Grænlandi berist lögreglu átta sinnum fleiri tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum en í Danmörku og Færeyjum. 

Hugsanlega sama staðan annars staðar á Grænlandi

Fjallað var um ofbeldið í Tasiilaq í þættinum „Bærinn þar sem börnin hverfa“ sem sýndur var á danska ríkissjónvarpinu í sumar. Í umfjöllun um málið á vefsíðu danska dagblaðsins Weekendavisen kemur m.a. fram að hugsanlega sé staða mála ekki verri í Tasiilaq en á öðrum stöðum á Grænlandi. „Munurinn er hugsanlega sá að í Tasiilaq eru þessi ofbeldisbrot kærð,“ er haft eftir Svend Foldager lögreglustjóra á Grænlandi. 

Í umfjöllun Weeendavisen segir að dönsk stjórnvöld muni leggja  til 5,3 milljónir danskra króna í því skyni að ráða bug á þessu. Senda á sálfræðinga og fjölskylduráðgjafa til Tasiilaq og setja á stofn starfshóp. Að mati Astrid Krag, innanríkis- og félagsmálaráðherra Danmerkur er þetta þó bara byrjunin. „Þetta er fyrsta skrefið sem er til þess að sinna fyrstu viðbrögðum,“ segir Krag í samtali við Weekendavisen.

mbl.is