Endurskoðun hafin í Úkraínu

Joe Biden er fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden er fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Ríkissaksóknari Úkraínu segir að embættið sé að endurskoða nokkur mál tengd orkufyrirtæki sem sonur Joe Biden, Hunter Biden, tengist. Um endurskoðun á reikningum sé að ræða sem embætti ríkissaksóknara hafði áður farið yfir. Er þetta gert til þess að kanna hvort um ólögmætt afhæfi hafi verið að ræða.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti óskaði í gær eftir því að yf­ir­völd í Kína og Úkraínu rann­saki Joe Biden, sem sæk­ist eft­ir því að verða for­seta­efni Demó­krata­flokks­ins í kom­andi for­seta­kosn­ing­um, og son hans Hun­ter Biden. 

Líkt og kom fram í grein Boga Þórs Arasonar blaðamanns á Morgunblaðinu í síðustu viku hafa fjölmiðlar vestanhafs skýrt frá því að uppljóstrarinn, sem lagði fram kvörtun í tengslum við símasamtal Donalds Trumps við forseta Úkraínu, sé starfsmaður leyniþjónustunnar CIA og hafi starfað um tíma í Hvíta húsinu í Washington.

Í kvörtuninni kemur fram að Trump notaði forsetaembættið til að reyna að knýja fram rannsókn á pólitískum andstæðingi sínum, Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem sækist eftir því að verða forsetaefni demókrata í kosningunum í nóvember á næsta ári. Uppljóstrarinn segir enn fremur að embættismenn í Hvíta húsinu hafi áttað sig á því hversu alvarlegt þetta mál sé og þess vegna gengið mjög langt í því að reyna að leyna upplýsingum um það.

Kvörtunin snýst um símasamtal Bandaríkjaforseta við Volodimír Zelenskí Úkraínuforseta 25. júlí og viðbrögð embættismanna í Hvíta húsinu við beiðni Trumps. Hún varð til þess fyrr í vikunni að forystumenn demókrata í fulltrúadeild þingsins ákváðu að hafin yrði formleg rannsókn með það fyrir augum að ákæra forsetann til embættismissis.

„Í opinberum skyldustörfum mínum hef ég fengið upplýsingar frá mörgum embættismönnum stjórnarinnar um að forseti Bandaríkjanna hafi notað embættið til að biðja um afskipti annars ríkis af kosningunum í Bandaríkjunum 2020,“ skrifaði uppljóstrarinn. Hann bætti við að Trump hefði m.a. reynt að „knýja annað ríki til að rannsaka einn af helstu andstæðingum forsetans í Bandaríkjunum“.

Uppljóstrarinn sagði að forsetinn hefði reynt að fá Zelenskí til að vinna með Rudy Giuliani, lögmanni Trumps, og Bill Barr dómsmálaráðherra að rannsókninni. Þetta kom einnig fram í minnisblaði um símasamtalið sem forsetaembættið gerði opinbert á miðvikudaginn var. Símasamtöl forsetans við leiðtoga annarra ríkja eru ekki hljóðrituð en aðstoðarmenn hans hlýða á þau og skrá orðaskiptin.

Höfðu áhyggjur af beiðninni

Uppljóstrarinn hefur eftir nokkrum embættismönnum í Hvíta húsinu að þeir hafi haft miklar áhyggjur af beiðni forsetans. Lögfræðingar hans hafi rætt hvernig taka ætti á símtalinu vegna þess að þeir hafi orðið vitni að því að forsetinn hafi „misnotað embættið í eigin þágu“. Embættismenn í Hvíta húsinu hafi þess vegna gripið til þess ráðs að „læsa inni“ allar upplýsingar um samtalið, einkum minnisblaðið þar sem orðaskiptin voru skráð.

Uppljóstrarinn hefur eftir embættismönnum í Hvíta húsinu að þeir hafi sagt lögfræðingum forsetaembættisins að færa upplýsingarnar um samtalið úr tölvukerfi þar sem slík minnisblöð hafa venjulega verið geymd til að hátt settir embættismenn geti haft aðgang að þeim. Gögnin hafi verið sett í annað tölvukerfi sem er ætlað fyrir leynilegar upplýsingar um mjög viðvæm mál. Uppljóstrarinn hefur einnig eftir embættismönnunum að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem slík minnisblöð um símasamtöl Trumps við leiðtoga annarra ríkja séu sett í þetta tölvukerfi. The Wall Street Journal hefur eftir fyrrverandi embættismanni, sem þekkir vel til tölvukerfa Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, að það væri „afar óvenjulegt“ ef upplýsingar um samtöl Trumps við forseta Úkraínu væru geymd í öruggasta tölvukerfinu því það væri ætlað þeim gögnum sem mest leynd væri yfir, t.a.m. um háleynilegar aðgerðir leyniþjónustumanna.

The Wall Street Journal hefur eftir embættismönnum í Hvíta húsinu að þeir séu enn að reyna að átta sig á þýðingu kvörtunarinnar og öryggisráðgjafar forsetans forðist að ræða málið. Blaðið segir að nokkrir af bandamönnum Trumps viðurkenni í trúnaðarsamtölum að þeir hafi áhyggjur af því að kvörtunin og væntanleg ákæra fulltrúadeildarinnar til embættismissis minnki líkurnar á því að hann nái endurkjöri í kosningunum á næsta ári, þótt þeir segi opinberlega að ákæran sé liður í „nornaveiðum“ og hún komi demókrötum í koll í kosningunum á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert