Reyndu að komast yfir sundið á gúmmíbát

Flóttafólk á gúmmíbáti á Ermarsundinu.
Flóttafólk á gúmmíbáti á Ermarsundinu. AFP

31 flóttamanni, sem var á leið frá Frakklandi til Englands, var bjargað á Ermarsundi í morgun. Fólkið var á tveimur gúmmíbátum, lenti í hremmingum og hafði samband við frönsku strandgæsluna sem kom fólkinu til aðstoðar. Allir sluppu óhultir frá volkinu, en nokkrir ofkældust.

Fólkið var frá Íran, Írak og Afganistan, í hópnum var unglingur og fjögur börn og farið var með þau aftur til Frakklands. Á þessu ári hafa breska og franska strandgæslan bjargað meira en 1.400 flóttamönnum sem hafa freistað þess að komast frá Frakklandi til Englands. Það eru tvöfalt fleiri en í fyrra.

Sjóferðin yfir Ermarsund er ekki hættulaus, jafnan er þar mikil umferð skipa og báta og sterkir straumar eru á sundinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert