Snýst „ekki endilega“ um Biden

Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu. AFP

Ríkissaksóknari Úkraínu greindi frá því í dag að skrifstofa hans hefði tekið til endurskoðunar afgreiðslu fimmtán mála sem tengdust úkraínska gasfyrirtækinu Burisma.

Sonur Joes Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og þátttakanda í forkosningum bandaríska Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári, Hunter Biden, hefur setið í stjórn fyrirtækisins. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sakaður um að hafa þrýst á Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu, í símtali á dögunum að láta rannsaka bæði Hunter og Joe Biden vegna tengsla þess fyrrnefnda við fyrirtækið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Saksóknarinn, Ruslan Ryaboshapka sem tók við embætti í ágúst, tók fram að umrædd mál tengdust „ekki endilega“ Hunter Biden. Verið væri að skoða hvort löglegt hefði verið að loka umræddum rannsóknum eða skipta þeim niður í minni mál eins og gert hafi verið. Yfirvöld í Úkraínu höfðu áður sagt að rannsóknir á Burisma snerust um tímabil áður en Hunter Biden tók sæti í stjórn fyrirtækisins. Þá segir í frétt AFP að Ryaboshapka hafi gefið í skyn að málið beindist að stofnanda fyrirtækisins og öðrum stjórnendum en Biden.

Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa hafið rannsókn á símtali Trumps við Zelenskí með það fyrir augum að reyna að koma honum úr embætti forseta Bandaríkjanna.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert