Bandaríkjamenn segja fundinn hafa gengið vel

Öryggisgæslan við ráðstefnumiðstöð á eyj­unni Lidin­gö, skammt und­an Stokk­hólmi, þar …
Öryggisgæslan við ráðstefnumiðstöð á eyj­unni Lidin­gö, skammt und­an Stokk­hólmi, þar sem fundurinn var haldinn var gríðarlega mikil. AFP

Fundur sendinefnda Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, sem haldinn var í Stokkhólmi í dag, heppnaðist vel og áttu nefndarmenn „góðar viðræður“ sín á milli. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna þrátt fyrir að fundinum hafi verið slitið fyrr en áætlað var og að talsmaður norður-kóresku sendinefndarinnar hafi kennt hugmyndaleysi Bandaríkjamanna um.

Á fundinum stóð til að ræða kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu sem og samskipti ríkjanna og hafði hans verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Var þetta fyrsti fundur ríkjanna síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, funduðu í Hanio í Víetnam í febrúar á þessu ári.

Fundinum var hins vegar slitið mun fyrr en áætlað var og sagði talsmaður norður-kóresku sendinefndarinnar að sökin væri Bandaríkjamanna. Sendinefnd þeirra hefði ekki komið með neitt nýtt að borðinu og því hefði ekki verið neitt annað í stöðunni en að slíta fundinum.

„Banda­ríkja­stjórn hafði vakið með okk­ur vænt­ing­ar og sagst ætla að bjóða upp á lausn­ir á borð við sveigj­an­leika og nýj­ar leiðir, en við urðum fyr­ir veru­leg­um von­brigðum,“ sagði Kim Myong Gil við fjölmiðla eftir fundarslitin og er það í hrópandi ósamræmi við það sem talskona utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Morgan Ortagus, sagði í yfirlýsingu:

„Nefndarmenn Bandaríkjanna komu með frjóar hugmyndir að samningaborðinu í dag og áttu í góðum viðræðum við mótaðila sína frá Norður-Kóreu. Ummæli norður-kóresks kollega okkar frá því í dag endurspegla ekki okkar sýn á viðræðurnar sem stóðu í átta og hálfan klukkutíma.“

Sænsk yfirvöld hafa boðist til að taka á móti sendinefndum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu á nýjan leik eftir tvær vikur svo að viðræðurnar geti haldið áfram og hafa yfirvöld í Washington fallist á það boð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert