Virtu grímubann að vettugi

Grímuklæddir mótmælendur gengu um götur Hong Kong í dag og virtu þannig að vettugi bann stjórnvalda við því að hylja andlit sitt. Mikið öngþveiti ríkir í borgríkinu, neðanjarðarlestakerfinu sem fjórar milljónir ferðast með að jafnaði daglega hefur verið lokað og verslunareigendur hafa lokað verslunum sínum af ótta við skemmdarverk.

Grímubannið er hluti af neyðarlög­um Carrie Lam, rík­is­stjóra Hong Kong og átti það að draga úr mótmælunum. Það hefur haft þveröfug áhrif, í dag hafa mörg þúsund manns mótmælt víða um Hong Kong. Fólkið myndaði keðjur, hrópaði slagorð og söng baráttusöngva. 

„Grímubannið er bara fyrsta skrefið,“ sagði Hosun Lee einn mótmælendanna í samtali við AFP-fréttastofuna og bætti við að hann óttaðist að fleiri lög, sem reyndu að stemma stigu við mótmælunum, yrðu sett.

Mót­mæli hafa staðið yfir reglu­lega í Hong Kong síðan snemma í júní og hef­ur of­beldi færst í aukana und­an­farið.  Upp­haf ­þeirra má rekja til laga­frum­varps sem heim­ila átti framsal meintra brota­manna til meg­in­lands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um aukn­ar lýðræðis­um­bæt­ur og að kín­versk stjórn­völd létu sjálfs­stjórn­ar­borg­ina af­skipta­lausa. 

mbl.is