Bætist í hóp uppljóstrara

Joe Biden fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP
Bæst hefur í hóp þeirra sem segjast geta staðfest það sem áður hefur komið fram um innihald símtals Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna og Volodimír Zelenskí forseta Úkraínu.  Uppljóstrari steig fram í dag og sagðist geta staðfest það sem komst upp varðandi innihald símtalsins og lögmaður í Washington segir að fleiri hugsanlegir uppljóstrarar hafi leitað til sín.
Mark Zaid, lögmaður uppljóstrarans sem steig fram í dag  greinir frá því að hann komi úr leyniþjónustunni rétt eins og sá fyrri og hafi upplýsingar frá fyrstu hendi 
Annar lögmaður, Andrew Bakaj sem rekur lögmannsstofu með Zaid, greindi frá því í dag að nokkrir einstaklingar sem byggju yfir vitneskju um málið og gætu staðfest frásögn uppljóstrarans hefðu leitað til lögmannsstofu hans. 
Trump er sakaður um að hafa þrýst á Zelenskí í sím­tali í sumar að láta rann­saka bæði Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkkj­anna og Hun­ter son hans vegna tengsla þess síðarefnda við úkraínska gas­fyr­ir­tækið Bur­isma. Trump hef­ur viður­kennt að hafa nefnt mál­efni Bidenfeðganna í símtalinu.
Málið hefur haft afar víðtækar afleiðingar fyrir forsetann, en Demókratar í hópi fulltrúardeildarþingmanna á Bandaríkjaþingi rannsaka nú hvort um embættisglöp hafi verið að ræða. 

Twitter-færsla Bakajs

mbl.is