Verður Nigel Farage sendur til Brussel?

Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins. Mun hann taka sæti í framkvæmdastjórn …
Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins. Mun hann taka sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. AFP

Hugmyndir eru uppi innan bresku ríkisstjórnarinnar um að tilnefna Nigel Farage, leiðtoga Brexitflokksins, til setu í næstu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafni sambandið tillögu Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að útgöngusamningi og verði hann þar með tilneyddur að óska eftir því að fresta útgöngunni úr því enn frekar. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

Til stóð upphaflega að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið 29. mars á þessu ári en þáverandi ríkisstjórn landsins óskaði eftir því við sambandið að fresta útgöngunni í tvígang. Nú stendur til að hún verði 31. október. Meirihlutinn í neðri deild breska þingsins hefur hins vegar hafnað því að gengið verði úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings og sambandið hefur neitað að fallast á útgöngu án þess meðal annars að Bretland í heild eða Norður-Írland verði áfram innan tollabandalags þess. Það hafa Bretar ekki viljað samþykkja.

Farage hefur átt sæti á þingi Evrópusambandsins frá árinu 1999. Lengst af fyrir Breska sjálfstæðisflokksins, sem hann veitti forystu um langt árabil, en frá síðustu kosningum til þingsins í maí á þessu ári fyrir Brexitflokkinn. Farage hefur gagnrýnt Evrópusambandið harðlega í gegnum árin og kallað eftir því að Bretland segði skilið við sambandið.

Fyrir vikið er viðbúið að Farage yrði ekki tekið fagnandi í Brussel. Ekki er þó víst að Farage yrði fyrir valinu hjá bresku ríkisstjórninni en þá líklega einhver annar harður stuðningsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Nafn Farages hefur verið nefnt þar sem fyrir liggur að hann hefur lengi verið þyrnir í augum forystumanna sambandsins.

Ursula von der Leyen verður næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen verður næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Hvert ríki Evrópusambandsins tilnefnir fulltrúa í framkvæmdastjórnina og sitja þar jafn margir fulltrúar og ríki sambandsins eru mörg. Fulltrúunum er þó óheimilt að draga taum heimalands síns og framkvæmdastjórnin í heild þarf samþykki þings Evrópusambandsins. Þingið greiðir þannig ekki atkvæði um hvern einstakan tilnefndan fulltrúa.

Hins vegar þykir ljóst að Farage í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins yrði erfiður ljár í þúfu sem er einmitt hugmyndin. Breska ríkisstjórnin hafði áður lýst því yfir að hún ætlaði ekki að tilnefna fulltrúa í framkvæmdastjórnina enda væri Bretland á útleið 31. október. Án bresks fulltrúa yrði ný framkvæmdastjórn líklega ólögleg að óbreyttum reglum.

Til þess að breyta reglum um fjölda fulltrúa í framkvæmdastjórninni og fækka þeim um einn þarf samþykki Breta. Til stendur að ný framkvæmdastjórn taki við völdum 1. nóvember, daginn eftir fyrirhugaða útgöngu Bretlands. Ljóst þykir að breska ríkisstjórnin gæti þannig sett strik í reikninginn í þeim efnum gangi Bretar ekki úr sambandinu 31. október.

Þá hefur breska ríkisstjórnin einnig rætt um þann möguleika að beita neitunarvaldi vegna fjárlaga Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2021-2027 sem greidd verða atkvæði um í mars verði Bretland enn innan sambandsins á þeim tímapunkti. Fleiri leiðir hafa verið ræddar til þess að trufla starfsemi Evrópusambandsins þar til af útgöngunni verði.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert