Vitni í máli lögreglukonunnar skotið til bana

Botham Shem Jean var heima hjá sér er Guyger gekk …
Botham Shem Jean var heima hjá sér er Guyger gekk þar inn og taldi sig vera á eigin heimili. Skjáskot/Facebook

Vitni í máli fyrrverandi lögreglukonu sem dæmd var til 10 ára fangelsisvistar fyrir að skjóta nágranna sinn til bana í íbúð nágrannans, hefur verið skotið til bana. 

Joshua Brown bjó á sömu hæð í íbúðarblokk í Dallas og Botham Jean sem var skotinn til bana af Amber Guyger eftir að hún fór fyrir mistök inn í íbúð Jean og taldi hann vera innbrotsþjóf. 

Brown bar vitni við réttarhöldin yfir Guyger og grét þegar hann gaf vitnisburð sinn um atburðarrásina. 

Hann lést á föstudag í því sem virðist hafa verið handahófskennd skotárás. Eftir því sem fram kemur á BBC telur lögregla ekki að morðið á Brown hafi nokkra tengingu við réttarhöldin yfir Guyger. 

Lee Merritt, lögmaður fjölskyldu Botham Jean, sagði bandaríska réttarkerfið þurfa að tryggja að Brown fái notið réttlætis. 

„Brown á skilið sama réttlæti og hann tryggði fjölskyldu Jean,“ sagði hann í yfirlýsingu sinni. 

Brown, 28 ára, var lýst sem fyrrverandi íþróttamanni og frumkvöðli. Við réttarhöldin yfir Guyger sagðist hann hafa verið á stigagangi íbúðarblokkarinnar þegar hann heyrði hljóð sem hann lýsti sem „tveimur manneskjum að hittast fyrir tilviljun“ og síðan skothljóð úr íbúð Jean. 

Saksóknari í Dallassýslu, Jason Hermus, vottaði Brown virðingu sína og sagði hann hafa „stigið fram af hugrekki til að bera vitni þegar aðrir vildu það ekki“.

„Ef við hefðum fleira fólk eins og hann, þá væri heimurinn betri staður,“ sagði Hermus. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert