Grínaðist með risvandamál og var drepin

Maðurinn játar að hafa drepið eiginkonu sína.
Maðurinn játar að hafa drepið eiginkonu sína. AFP

Breskur karlmaður á sextugsaldri barði eiginkonu sína til bana með kylfu eftir að hún kallaði hann „linan og gagnslausan“ og gerði grín að risvandamáli hans.

Hinn 51 árs gamli David Promphret sagði fyrir dómi að hann hefði drepið konuna sem hann elskar eftir að eiginkonan, Ann Marie, lét áðurnefnd orð falla.

Samkvæmt frétt Sky News barði Promphret Ann Marie meira en 30 sinnum í höfuðið eftir að hann missti stjórn á sér í kjölfar ummæla hennar. Hann játar manndráp en neitar því að hafa framið morð.

Fyrir dómi kom fram að Ann Marie hafi glímt við þunglyndi og skapgerðarvandamál sem ollu því að hún missti stundum stjórn á skapi sínu. Þá hafi Promphret og 18 ára dóttir þeirra hjóna, Megan, forðast hana og leyft henni að fá útrás.

Það hefði þeim feðginum ekki tekist í byrjun nóvember í fyrra. Ann Marie kallaði dóttur sína þá lausláta og sagði að Promphret væri slæmt foreldri. „Hún sagði síðan að ég væri linur og gagnslaus. Það er frekar vandræðalegt en ég hef glímt við risvandamál,“ sagði Promphret fyrir dómi.

Ann Marie sló eiginmann sinn utan undir en hann greip þá í hana og man næst eftir sér þar sem hann stóð yfir henni með blóð á höndum sér. Fram kemur í frétt Sky að réttarhöldin haldi áfram á næstu dögum.

mbl.is