Landamæri Íraks og Íran opnuð að nýju

Stjórnvöld í Íran hafa opnað landamæri sín við Írak að nýju en þeim var lokað fyrir nokkrum dögum vegna mótmæla í höfuðborg Íraks, Bagdad. Yfir 100 hafa látist í aðgerðum lögreglu og hers gagnvart mótmælendum. Íraski herinn hefur viðurkennt að hafa beitt of mikill hörku gagnvart mótmælendum.

Landamærastöðin við Khosravi var opnuð að nýju í morgun og fór meðal annars hópur pílagríma yfir til Íraks. Landamærunum var lokað að beiðni íraskra yfirvalda á fimmtudag. 

Fjölmargir Íranar eru á leið til írösku borgarinnar Karbala þar sem helgidóma sjíta er finna. Þar stendur yfir árleg hátíð sjíta, Arabaeen sem nær hámarki 17. október. 

Arabaeen er ein stærsta trúarhátíð sjíta en með henni lýkur 40 daga sorgartímabili vegna dráps á Hussein sem var imam sjíta á sjöundu öld. Um 1,8 milljónir Írana tóku þátt í hátíðinni í Karbala í fyrra.

mbl.is