Áhöfn skipsins drukkin og 95 drukknuðu

Sjö manns lifðu af þegar ferjan sökk.
Sjö manns lifðu af þegar ferjan sökk. AFP

Áhöfn ferjunnar var drukkin, skipið var ofhlaðið farþegum og ekki voru tilskilin leyfi til að flytja farþega á sjó. Þetta er niðurstaða rannsóknar á sjóslysi sem átti sér stað í fyrra þar sem 95 manns létust þegar skipið MV Butiraoi sökk á Kyrrahafi við Kiribati-eyjaríkið. BBC greinir frá. 

Aðeins sjö einstaklingar lifðu af, fimm farþegar þar af 14 ára gömul stúlka og tveir úr áhöfn skipsins. Þeir fundust við illan leik á reki í björgunarbát. Leit hófst að skipinu eftir átta daga. Skipið var á leið í tveggja daga siglingu frá Nonouti-eyju til Tarawa-eyju 18. janúar í fyrra.  

Flestir létust úr hungri, ofþornun eða vegna ofkælingar. Ein kona lést við barnsfæðingu. 

Ferjan lét úr höfn án þess að láta yfirvöld vita. Engin boð vor send í gegnum stjórnstöð þegar skipið byrjaði að sökkva nokkrum klukkustundum eftir að það lét úr höfn. Engin talstöð var virk ferjunni og því hafði engin vitneskju um afdrif hennar.

Að átta dögum liðnum var farið að undrast um ferjuna og leit hófst að henni. Flugvélar frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Bandaríkjunum leituðu á sjónum og fundu fyrrgreindan björgunarbát.  

Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að ferjan var einnig með 30 tonn af þurrkaðum kókoshnetum og hafði ekki leyfi til að flytja farþega, skipstjórinn sem var drukkinn auk áhafnar tók ekki mið af veðurspá, báturinn liðaðist í sundur því viðhaldi hans hafði ekki verið sinnt sem skyldi, ekki voru næg björgunarvesti um borð í skipinu og annar af tveimur björgunarbátum virkaði. 

Kiribati-eyjar eru í Kyrrahafi skammt frá Nýja-Sjálandi.
Kiribati-eyjar eru í Kyrrahafi skammt frá Nýja-Sjálandi. Kort
mbl.is