Fækkun þingmanna á að skila 137 milljörðum

Fækkun þingmanna á ítalska þinginu er hluti af stjórnarsáttmála Fimmstjörnuhreyfingarinnar, …
Fækkun þingmanna á ítalska þinginu er hluti af stjórnarsáttmála Fimmstjörnuhreyfingarinnar, sem nýlega myndaði ríkisstjórn með sósí­al­demó­kröt­un­um í Lýðræðis­flokkn­um. AFP

Ítalska þingið hefur samþykkt að fækka þingmönnum í efri og neðri deild þingsins um rúman þriðjung. Á fækkunin að stuðla að hagræðingu í rekstri þingsins. 

Neðri deild þingsins samþykkti að fækka þingmönnum úr 630 í 400 og efri deildin að fækka þingmönnum úr 315 í 200. 

Fækkunin er hluti af stjórnarsáttmála Fimmstjörnuhreyfingarinnar, sem nýlega myndaði ríkisstjórn með sósí­al­demó­kröt­un­um í Lýðræðis­flokkn­um. Aðgerðirnar eiga að „straumlínulaga þingið og spara hundruð milljóna evra í launakostnað og önnur fjárútgjöld“. 

Stjórnmálakrísa hefur ríkt á Ítalíu síðustu mánuði. Í ágúst lýsti Sal­vini inn­an­rík­is­ráðherra því yfir að hann ætlaði að draga sig út úr stjórn­ar­sam­starfi við Fimmstjörnuhreyf­ing­una og boða til kosn­inga, en sam­starfið hafði verið í meira lagi erfitt, þar sem flokk­arn­ir voru lítt sam­stíga um ýmis stefnu­mál. Fimmstjörnuhreyfingunni og Lýðræðisflokknum tókst að lokum að mynda  ríkisstjórn, en ítalsk­ir fjöl­miðlar hafa lýst þreif­ing­um flokk­anna tveggja sem „klikkuðustu krísu sög­unn­ar“. 

Aðgerðirnar hafa verið gagnrýndar á þeim forsendum að þær veiki lýðræðið og auðveldi fulltrúum þrýstihópa að koma málum sínum á framfæri. 

Í færslu Fimmstjörnuhreyfingarinnar á Twitter segir að breytingarnar, sem voru studdar af nær öllum flokkum, muni spara ítalska ríkinu einn milljarð evra á næstu 10 árum, eða sem nemur rúmum 137 milljörðum króna. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert