Höfða mál gegn Boeing

Boeing 737 MAX-þotur Southwest Airlines.
Boeing 737 MAX-þotur Southwest Airlines. AFP

Flugmenn bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines hafa höfðað mál gegn Boeing-flugvélaframleiðandanum. Saka þeir Boeing um að hafa vísvitandi leynt upplýsingum um 737 MAX-þoturnar sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars eftir tvö flugslys. 

Tæplega 350 manns létust í flugslysinu í Indónesíu fyrir ári og í Eþíópíu í mars á þessu ári.

Að sögn formanns samtaka flugmanna hjá Southwest Airlines (SWAPA), Jonathan Weaks, verða flugmenn að geta treyst upplýsingum sem koma frá Boeing ef þeir eigi að geta gætt fyllsta öryggis í starfi. „Í tilviki 737 MAX er það alls ekki raunin,“ segir Weaks. 

Kyrrsetning 737 MAX í mars hefur haft áhrif á yfir 30 þúsund flugferðir hjá Southwest og þýtt yfir 100 milljóna Bandaríkjadala launaskerðingu fyrir flugmenn félagsins. 

Ekkert flugfélag í heiminum er með jafn margar 737 MAX-þotur í flota sínum og Southwest. Talið er að þoturnar verði ekki komnar í notkun að nýju fyrr en á næsta ári.

Í málsskjölunum sem lögð voru fram í Dallas í Texas í gær kemur fram að Boeing hafi falsað upplýsingar um flughæfi vélanna. Í báðum flugslysunum lentu flugmennirnir í vandræðum með að stýra þotunum eftir að MCAS-stýri­kerfið var virkjað.

mbl.is

Bloggað um fréttina