Hvíta húsið neitar að aðstoða við ákæruferlið

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Hvíta húsið mun ekki með nokkrum hætti starfa með þingmönnum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í ákæruferlinu gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Lögmaður forsetans og Hvíta hússins segir ákæruferlið ólögmætt. 

Trump er sakaður um að hafa þrýst á Volodymir Zelenskí, forseta Úkraínu, í sím­tali í sum­ar að láta rann­saka bæði Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkj­anna og mögu­leg­an keppi­naut hans um for­seta­stól­inn á næsta ári, og Hun­ter, son hans, vegna tengsla þess síðar­nefnda við úkraínska gas­fyr­ir­tækið Bur­isma. Trump hef­ur viður­kennt að hafa nefnt mál­efni feðganna í sím­tal­inu.

Málið hef­ur haft afar víðtæk­ar af­leiðing­ar fyr­ir for­set­ann, en demó­krat­ar í hópi full­trú­ar­deild­arþing­manna á Banda­ríkjaþingi rann­saka nú hvort um embætt­is­glöp hafi verið að ræða. 

Í átta síðna bréfi Pat Cipollone, yfirlögmanns Hvíta hússins, til Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins, og þriggja annarra leiðtoga Demókrataflokksins, segir að rannsóknin brjóti gegn stjórnarskrá og sé ósanngjörn. Þar er tekið fram að enginn starfsmaður ríkisstjórnarinnar muni koma fyrir þingnefnd vegna rannsóknarinnar og engin skjöl verði afhent. 

„Trump getur ekki leyft ríkisstjórn sinni að taka þátt í þessari flokksbundnu vegferð undir þessum kringumstæðum,“ segir meðal annars í bréfinu. Þá fullyrðir Cipollone að rannsóknin brjóti gegn réttindum Trumps. 

Fyrr í dag kom Hvíta húsið í veg fyr­ir að Gor­don Sond­land, sendi­herra Banda­ríkja­stjórn­ar gagn­vart Evr­ópu­sam­band­inu, bæri vitni fyr­ir nefnd­um full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í tengsl­um við rann­sóknina. 

Útlit er fyrir stjórnarskrárkrísu í bandarískum stjórnmálum og segja fjölmiðlar vestanhafs bréfið á við stríðsyfirlýsingu til þingsins.

mbl.is