Undirbúningi lokið fyrir árásir

AFP

Tyrkir gerðu loftárásir á hersveitir Kúrda í norðurhluta Íraks í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Tyrklands. 

Í færslu ráðuneytisins á Twitter kemur fram að níu hryðjuverkamenn hafi verið drepnir í loftárásum í Hakurk -og Hafta-héruðum. Einnig voru gerðar loftárásir fyrr um kvöldið í Gara-héraði og segir varnarmálaráðuneytið að þrír hryðjuverkamenn hafi verið drepnir þar. 

Loftárásirnar eru liður í reglubundnum árásum Tyrkja á hersveitir Kúrda í Írak og ótengdar fyrirhuguðum árásum Tyrkja gegn hersveitum Kúrda í Sýrlandi. 

Ákvörðun Tyrkja um að gera árásir í norðausturhluta Sýrlands veldur m.a. óvissu um hvað verður um 12.000 liðsmenn Ríkis íslams sem eru í haldi herliðs Kúrda í norðanverðu Sýrlandi ásamt um 58.000 konum og börnum þeirra. Á meðal fanganna eru a.m.k. 4.000 liðsmenn samtakanna frá öðrum löndum en Sýrlandi. 

Talsmaður bandalags sem nefnist Sýrlensku lýðræðisöflin lýsti ákvörðun Donald Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að setja sig ekki upp á móti fyrirhuguðum árásum Tyrkja, sem svikum og „stungu í bakið“. Sýrlensku lýðræðisöflin eru undir forystu samtaka sýrlenskra Kúrda, YPG. Tyrkir segja að þau séu hryðjuverkasamtök og í nánum tengslum við Verkamannaflokk Kúrdistans (PKK), sem hefur barist fyrir því að Kúrdar fái sjálfstjórnarréttindi í Tyrklandi. Tyrkir eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu og samskipti þeirra við Bandaríkin hafa verið stirð, m.a. vegna deilna um hvernig taka eigi á stríðinu í Sýrlandi.

Tyrkir hófu landhernað gegn PKK í Írak í maí en flokkurinn hefur barist fyrir sjálfstæði Kúrda frá Tyrklandi síðan árið 1984. 

Tyrkneska varnarmálaráðuneytið segir að undirbúningi fyrir aðgerðir í Sýrlandi sé lokið og þær geti hafist á hverri stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert