Draumaferðin varð að helvítisreisu

Norwegian Spirit. Ekki er hægt að segja að farþegarnir um …
Norwegian Spirit. Ekki er hægt að segja að farþegarnir um borð hafi verið ánægðir.

Það sem átti að vera draumasigling á norska skemmtiferðaskipinu Norwegian Spirit um norsku firðina og til nokkurra Evrópulanda, m.a. Íslands, varð að martröð farþeganna sem á endanum gerðu uppreisn gegn áhöfninni sem brást við með því að loka fyrir netsambandið á skipinu svo farþegarnir gætu ekki látið umheiminn vita af hremmingum sínum.

Gamall matur og stífluð klósett eru meðal þess sem farþegarnir segja að hafi einkennt viðurgjörninginn um borð í skipinu sem er skilgreint sem lúxusskip. Um borð voru um 2.000 farþegar og höfðu þeir, sem voru í dýrustu klefunum, greitt rúmlega 800 þúsund íslenskar krónur fyrir tveggja vikna ferð sem auglýst var sem „Einstök upplifun í ferð um töfrandi firði“, þar sem sigla átti um norsku firðina og síðan til Le Havre í Frakklandi, Amsterdam og Íslands.

Skipið lagðist þó hvorki að höfn í Le Havre né Amsterdam vegna veðurskilyrða og sigldi þá til Noregs þar sem farið var í „lítilfjörlegan bæ“ þar sem fátt var um fagra firði. Hætt var við að sigla til Íslands vegna veðurs, en þess í stað farið til Skotlands, til Greenock sem er skammt frá Glasgow. Þar var skipinu meinað að leggjast að bryggju vegna stærðar sinnar og var þá siglt til Belfast.

Gerðu uppreisn

Þegar hér var komið sögu var nokkur kurr kominn í farþegana sem kröfðust endurgreiðslu. Rekstraraðili skipsins, skipafélagið Norwegian Cruise Line, hafnaði því og bauð farþegunum 25% afslátt af næstu siglingu þeirra með skipum félagsins. Þá ákváðu farþegarnir að gera uppreisn og marseruðu um skipið kyrjandi slagorð á borð við „Skammist ykkar“, „Siglið með okkur til London“ og „Við viljum fá endurgreitt“. 

Mótmælin voru tekin upp á snjallsíma, en einn farþeganna fullyrti að áhöfnin hefði slökkt á netsambandi skipsins til að koma í veg fyrir að þau færu á netið.

Þegar til Belfast var komið, sem var í fyrradag, ákváðu margir farþegar að yfirgefa skipið. Farþegar hafa tjáð sig um ferðina á Twitter og þar segja margir að þeir séu farnir frá borði.

Sannkallað lúxusfley

Á vefsíðu skipafélagsins segir að skipið sé sannkallað lúxusfley; þar séu 17 veitingastaðir, m.a. steikhús og japanskur veitingastaður. Þar sé spilavíti, heilsulind, líkamsrækt og vatnsleikjagarður.

Í umfjöllun norska vefmiðilsins Nettavisen segir að forsvarsmenn skipafélagsins hafi ekki tjáð sig um málið. Breska blaðið The Daily Mail fjallar einnig um málið og þar segir talsmaður skipafélagsins að skipið hafi þurft að breyta ferðum sínum vegna veðurs.

mbl.is