Drógu borgarstjórann eftir götunni og skipuðu að efna kosningaloforð

Borgarstjórinn Jorge Luis Escandón Hernández.
Borgarstjórinn Jorge Luis Escandón Hernández. Ljósmynd/periodicocentral.mx

Ellefu manns voru handteknir í mexíkósku borginni Las Margaritas. Þeim er gert að sök að hafa numið borgarstjórann á brott úr stjórnarbyggingu, bundið hann á höndum við pallbíl og dregið hann eftir götunni.  

Lögreglan hafði afskipti af fólkinu sem eru bændur og frelsaði borgarstjórann. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig og slösuðust bæði lögreglumenn og nokkrir hinna handteknu en borgarstjórinn ku víst ekki hafa slasast alvarlega eftir atvikið.

Ástæðan fyrir árásinni á borgarstjórann, Jorge Luis Escandón Hernández, er sú að fólkið krefst þess að hann uppfylli kosningaloforð sín og bæti vegakerfi í Chiapas-ríki. Þetta er önnur árásin sem bændur standa fyrir og krefjast þessara úrbóta. Eftir þessa árás hefur lögreglumönnum verið fjölgað í ríkinu. 

Borgarstjórar og aðrir stjórnmálamenn í Mexíkó verða oftsinnis fyrir árásum af hálfu skipulagðra glæpasamtaka þegar þeir neita að hylma yfir með starfsemi þeirra. Hins vegar er það óalgengt að ráðist sé á stjórnmálamenn fyrir að efna ekki kosningaloforð sín. 

Borgarstjórinn hyggst leggja fram kæru á hendur mönnunum fyrir mannrán og tilraun til manndráps.  

Frétt BBC um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert