Einelti og brottrekstur í feðraorlofi

AFP

Kanadískur faðir segist hafa orðið fyrir einelti af hálfu stjórnenda fyrirtækis sem hann starfaði hjá í Tókýó. Hann var síðan rekinn úr starfi. Ástæðan var sú að hann vildi fara í feðraorlof. Ásakanir mannsins voru teknar fyrir í dómsal í Tókýó í dag.

Þetta er í annað skiptið sem slíkt mál kemur upp í Japan á stuttum tíma. Glen Wood hefur búið í Japan í þrjá áratugi og starfaði hjá verðbréfafyrirtækinu Mitsubishi UFJ Morgan Stanley Securities þegar sonur hans fæddist í október 2015. Wood segist hafa sótt um feðraorlof áður en sonur hans fæddist í Nepal þar sem maki hans starfaði. Fyrirtækið sýndi lítinn áhuga á lögmætri beiðni hans og endaði með að krefjast þess að hann færi í DNA-próf til að sanna faðernið. 

„Ég vissi að gamaldags hugsunarháttur réði ríkjum í fyrirtækinu en þetta kom mér verulega á óvart. Þetta var neyðartilvik og sonur minn (sem var fyrirburi) var á gjörgæslu. Samt ætluðu þeir að synja mér um fæðingarorlof,“ segir Wood. Það var ekki fyrr en á jóladag 2015 að hann fékk loks orlofið samþykkt og gat farið að sjá son sinn.

Hann sneri aftur til starfa í mars 2016 en eftir það varð hann fyrir einelti í vinnunni. Þetta endaði með því að hann varð þunglyndur og var frá vinnu vegna veikinda í hálft ár. Þegar hann kom til baka að nýju var hann sendur í launalaust leyfi og rekinn að því loknu.

Mitsubishi UFJ Morgan Stanley Securities neitar sök og segir að fyrirtækið styðji fæðingarorlof starfsmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert