Flokka samtök Navalny sem erlendan erindreka

Alexei Navalny, leiðtogi rúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar og stofnandi samtakanna FBK sem …
Alexei Navalny, leiðtogi rúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar og stofnandi samtakanna FBK sem berjast gegn spillingu, segir Vladimir Putin, forseta Rússlands, skíthræddan við samtökin. AFP

Samtök Alexei Navalny, sem berjast gegn spillingu í Rússlandi, eru nú flokkuð sem erlendur erindreki, samkvæmt skráningu rússneskra stjórnvalda. Með því að skrá samtökin með þessum hætti gefur það stjórnvöldum víðtækar heimildir til eftirlits með starfseminni.   

Alexei Navalny, leiðtogi rúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar, er yfirlýstur andstæðingur Vladimir Putin forseta Rússlands og hefur iðulega gagnrýnt hann fyrir spillingu. Navalny hefur margoft verið handtekinn af rússneskum yfirvöldum meðal annars fyrir að hvetja til mótmæla. 

„Þetta er ólöglegt,“ fullyrðir Navalny og segir enn fremur að „augljóst er að þetta er skipun frá Putin“. Navalny segir á samskiptamiðlinum Twitter að samtökin FBK hafi aldrei tekið við erlendu fjármagni. Hann skorar á rússneska dómsmálaráðuneytið að leggja fram gögn sem sýna að samtökin hafi þegið fé erlendis frá. „Putin er skíthræddur við FBK,“ segir hann jafnframt.   

Árið 2012 voru samþykkt lög í Rússlandi sem fela í sér að ef félagasamtök þiggja fé frá erlendu ríki verði eftirlit með þeim aukið. Á þessu sjö ára tímabili hafa fjölmörg samtök lagt upp laupana vegna þessa.  

Navalny var í sumar dæmdur til 30 daga fangelsisvistar fyrir að standa fyrir mótmælum. Á meðan fangelsisvistinni stóð var hann fluttur á sjúkrahús því talið er að eitrað hafi verið fyrir honum. Árið 2017 var eitrað fyrir honum en læknum tókst að bjarga sjón hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert