Innrásin í Írak versta ákvörðun Bandaríkjanna

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Tugir þúsunda Sýrlendinga sem tóku þátt í hernaði Frelsishers Sýrlands (FSA) hafa verið kallaðir til starfa af tyrkneskum yfirvöldum en þeim er ætlað að taka þátt í hernaði Tyrkja gegn hersveitum Kúrda í Sýrlandi.

Tyrknesk yfirvöld skilgreina hersveitir Kúrda sem hryðjuverkamenn og ætla að ráðast inn í Sýrland gegn þeim eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hann ætlaði að kalla her sinn heim frá landamærum Sýrlands og Tyrklands. 

Trump segir núna að hernaður Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum sé versta ákvörðun sem tekin hafi verið í sögu landsins og hann ætli að tryggja hermönnum örugga heimferð. Vísar forsetinn til innrásar Bandaríkjanna í Írak 2003.  

Sýrlensku hermennirnir sem um ræðir eru flestir frá svæðum í norðvesturhluta Sýrlands sem Tyrkir hafa ráðið yfir frá árunum 2016 og 2018. Þeim hefur verið smalað saman í fyrrverandi flóttamannabúðum í tyrkneska landamærabænum Akcakale. FSA naut stuðnings stjórnvalda í Ankara, bæði fjárhagslega og í vopnum. Að minnsta kosti 18 þúsund þeirra munu taka þátt í hernaði Tyrkja.

Að sögn Abdelrahman Ghazi Dadeh, talsmanni Anwar al-Haq, sem er lítil deild innan FSA, verða átta þúsund þeirra sendir í sýrlenska landamærabæinn Tal Abyad og 10 þúsund í bæinn Ras al-Ain. Ekki hefur verið gefið upp hversu margir muni taka þátt í hernaði í Kobane. Allir þrír bæirnir eru undir stjórn varnarsveita Kúrda (YPG). Talið er fullvíst að innrásin hefjist í kvöld.

AFP
mbl.is