Rafmagnsleysi komi í veg fyrir skógarelda

Upptök mikilla skógarelda í Kaliforníu í fyrra má að hluta …
Upptök mikilla skógarelda í Kaliforníu í fyrra má að hluta til rekja til skorts á viðhaldi á raflínum orkufyrirtækisins Pacific Gas and Electric. Raflínurnar féllu í hvassviðri og út frá þeim kviknaði eldur. Fyrirtækið tekur nú rafmagn af ákveðnu svæði til að koma í veg fyrir að eldar kvikni á ný. AFP

Bandaríska orkufyrirtækið Pacific Gas and Electric (PG&E) hefur lokað fyrir rafmagn til um 800 þúsund heimila og fyrirtækja í Kaliforníu í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir að skógareldar breiðist út. 

Rafmagnsleysisins mun gæta í nokkra daga en mun ekki ná til San Fransisco. 

Hár lofthiti og hvassviðri er í kortunum og því ákváðu forsvarsmenn PG&E að taka rafmagn af svæðinu til að koma í veg fyrir að eldar kvikni frá föllnum raflínum, en raflínur á vegum PG&E voru einmitt upptök skógarelda á svæðinu í fyrra, þegar 86 manns létu lífið. 

Rauð viðvörun hefur verið gefin út í hálöndunum í Santa Cruz sökum hættu á skógareldum. 

„Við höfum upplifað fordæmalausa skógarelda síðustu tvö ár,“ segir talskona PG&E í samtali við BBC. Úrræði líkt og taka rafmagn af tímabundið hefur verið beitt áður en ekki af þessari stærðargráðu. 

Skólar á svæðinu hafa beint því til nemenda að halda sig heima í dag þar til frekari upplýsingar liggja fyrir. „Tilhugsunin um fimm daga án rafmagns er hrikaleg,“ segir Libby Schaaf, borgarstjóri í Oakland.

Rafmagnsleysið mun hafa áhrif á íbúa í þrjátíu sýslum í ríkinu en PG&E segja aðgerðirnar nauðsynlegar. Orkufyrirtækið hefur komið upp 28 úrræðamiðstöðvar á svæðinu sem opnar verða á daginn. Þar geta íbúar hlaðið raftæki, notað salerni og nálgast vatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert