Skotárás við sýnagógu í Halle

Mynd úr safni. Lögreglan er að elta árásarmanninn, sem er …
Mynd úr safni. Lögreglan er að elta árásarmanninn, sem er á flótta í bíl. AFP

Minnst tveir eru látnir í skotárás sem var að eiga sér stað í nágrenni við samkunduhús gyðinga í borginni Halle í Þýskalandi. Árásarmaðurinn er á flótta í bifreið. Lögreglan biður fólk að halda kyrru fyrir heima og neðanjarðarlestum hefur verið lokað.

Í dag er friðþægingardagur hjá gyðingum, helgastur allra helgidaga í gyðingdómi. 

Árásin átti sér stað á kebabstað sem er til húsa nærri sýnagógu. Ekki liggur fyrir hvort árásin hafi beinst sérstaklega að sýnagógunni eða gestum hennar eða umræddum kebabstað. Samkvæmt vefútgáfu Bild var handsprengju þá varpað inn á kebabstaðinn, án þess að með þeirri sprengju hafi árásarmanninum tekist að valda nokkrum skaða.

Þessa stundina er árásarmaðurinn á flótta í bíl á leiðinni suður í átt að Leipzig. Hvað býr að baki tilræðinu er ekki vitað. Þá kunna árásarmennirnir að vera fleiri en einn.

Lögreglan í Halle segir frá því á Twitter að tveir séu látnir. Rannsókn stendur yfir.

Deutsche Bahn tilkynnir að aðallestarstöðinni í Halle hafi verið lokað um stund. Halle við Saale er stærsta borg í Saxlandi-Anhalt. Íbúarnir eru um 250 þúsund.

 Fréttin var uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert