Þingmenn leggja til frystingu eigna Erdogan

Frumvarpið myndi hafa það í för með sér að allar …
Frumvarpið myndi hafa það í för með sér að allar bandarískar eignir leiðtoga Tyrklands yrðu frystar, þar á meðal eignir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, varaforseta hans og varnarmálaráðherra, ef þeir kalla tyrkneska herinn ekki aftur frá Sýrlandi. AFP

Öldungadeildarþingmenn úr báðum flokkum hafa sammælst um að leggja fram tillögu um víðtækar þvingunaraðgerðir gegn Tyrkjum afturkalli þeir her sinn ekki frá Sýrlandi.

Repúblikaninn Lindsey Graham og demókratinn Chris van Hollen hyggjast leggja fram frumvarp sem myndi hafa það í för með sér að allar bandarískar eignir leiðtoga Tyrklands yrðu frystar, þar á meðal eignir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, varaforseta hans og varnarmálaráðherra, ef þeir kalla tyrkneska herinn ekki aftur frá Sýrlandi.

Þá myndu þvinganirnar einnig ná til aðila sem stunduðu viðskipti við tyrkneska herinn.

Þingmenn beggja flokka eru ævareiðir vegna ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að kalla bandaríska herinn frá Norður-Sýrlandi, en sú ákvörðun gerði Tyrkjum kleift að ráðast inn í landið.

Að minnsta kosti átta almennir borgarar eru meðal hinna 15 sem látist hafa í aðgerðum Tyrklandshers í Norður-Sýrlandi í dag.

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins.
Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins. AFP
mbl.is